Nú í ársbyrjun er ár liðið frá því að lagabreyting var gerð í þeim hluta mannvirkjalaga sem fjallar um úttektir mannvirkja á byggingartíma. Byggingarstjórar sjá nú að mestu leyti sjálfir um úttektir og framkvæma þær á rafrænan hátt með nýjum hugbúnaði/appi.
Snemma árs 2019 tók byggingarfulltrúi Borgarbyggðar upp umsókna- og úttektakerfið OneLandRobot. Kerfinu er ætlað að gera byggingarleyfisumsóknaferlið skilvirkara og aðgengilegra fyrir húsbyggjendur ásamt því að gera umsækjendum og þeim sem að verkinu koma kleift að fylgjast með stöðu verksins í gegnum Þjónustugátt sveitarfélagsins.
Á árinu 2019 hefur teymi byggingarfulltrúa unnið að því að kynna nýtt kerfi og breytt fyrirkomulag fyrir húsbyggjendum, hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum með ágætis árangri. Innleiðing nýja kerfisins hefur því gengið nokkuð vel.
Á sama tíma og byggingarfulltrúi er að innleiða nýtt kerfi hefur pappírinn almennt verið að víkja fyrir hinu rafræna í stjórnsýslu Borgarbyggðar. Nú eru flestar umsóknir gerðar á rafrænan hátt í gegnum Þjónustugátt sveitarfélagsins. Þetta stuðlar m.a. að aukinni skilvirkni og pappírssparnaði.
Borgarbyggð leggur áherslu á rafræna stjórnsýslu og OneLandRobot er stórt skref í þá átt.