Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar þann 24. september sl., var tillaga Gunnars Sigurðssonar og Einars Brandssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um sameiningarviðræður við sveitarstjórnir Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps og Borgarbyggðar samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Bæjarstjóra var falið að fylgja málinu eftir.
Í greinargerð sem fylgdi tillögunni kemur fram að á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, sem haldinn var nú í september, hafi innanríkisráðherra greint frá því að sameining sveitarfélaga á Íslandi yrði ekki þvinguð heldur yrði það alfarið að vera í höndum sveitarfélaganna sjálfra að hafa frumkvæði að slíkum viðræðum.