Stærsta verkefni Borgarbyggðar á næsta ári verður stækkun Grunnskólans í Borgarnesi. Þó er ljóst að einnig þarf að fara í umtalsverða gatnagerð í Borgarnesi í samræmi við kynntar deiliskipulagstillögur. Vísbendingar eru um að framundan geti verið töluverð uppbyggingarstarfsemi í Borgarbyggð sem bæjarfélagið undirbýr sig undir að geta mætt.
Fjölmiðlaumræða
Það er ljóst að umfjöllun fjölmiðla af ákveðnum svæðum eins og Borgarfjarðarhéraði skipta miklu máli fyrir þá sýn sem landsmenn almennt hafa af viðkomandi svæði. Ég varð nokkuð var við það þegar ég var að flytjast í Borgarnes að kunningjum og fyrri starfsfélögum þótti þetta undarleg ákvörðun. Ástæðan var m.a. sú að fólk hafði þær hugmyndir um Borgarfjörðinn að þar væri samdráttur og lítið að gerast, fólk væri helst að þrasa um vegstæði og ýmis “smámál”. Að sumu leyti var þetta eðlilegt. Atvinnulíf á þessu svæði hefur gengið í gegnum mikið samdráttartímabil og þá ekki síst sú atvinnugrein sem allt hefur í raun byggst á, landbúnaðurinn. Íslenskur landbúnaður er þessi árin að ganga í gegnum ótrúlegar breytingar sem ekki sér fyrir endann á. Fólki fækkar í hefðbundnum búskap en ferðaþjónusta ýmiskonar vex. Sífellt verður algengara að fólk í dreifbýli sæki vinnu fjarri heimili.
Ánægjulega breytingu hefur mátt merkja undanfarið varðandi ímynd Borgarfjarðarsvæðisins. Þannig er m.a. greinilegt að fréttir sem bárust af opnun verslunarmiðstöðvar Hyrnutorgs hafa verið til að styrkja jákvæða mynd af þróun mála. Af samtölum við fólk, t.d. á höfuðborgarsvæðinu er ljóst að fréttaflutningur hafði í þessu tilfelli töluverð áhrif. Almennt held ég að fréttaflutningur úr Borgarfjarðarhéraði hafi styrkst, ekki síst eftir að fréttaritarar af Vesturlandi eiga orðið innangengt á ríkisfjölmiðlunum. Ég hefði þó gjarnan viljað sjá fjölmiðla sýna þessu svæði meiri athygli. Þar skipir auðvitað bæði máli hversu virkir fréttaritarar eru og ekki síður hversu virkir við heimamenn erum að koma fréttnæmu efni til skila.
Uppbygging í Borgarnesi
Í Borgarnesi eru uppi framsæknar hugmyndir bæði um að efla atvinnustarfsemi sem fyrir er og hefja nýja. Ekkert er þar þó fast í hendi en gangi væntingar eftir munum við sjá umtalsverða uppbyggingu verða hér á næstu árum. Sveitarfélagið hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna varðandi samfélagslega þjónustu, skipulagsmál og að skapa almennt þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar. Markvisst hefur verið unnið í skipulagsmálum í Borgarnesi á árinu og ekki komið að leiðarenda í því. Senn hefjast framkvæmdir við byggingu nálægt 40 íbúða á lóðum sem úthlutað hefur verið. Deiliskipulag fyrir tvær nýjar götur fyrir um 60 íbúða byggð er auk þess í kynningu. Unnið hefur verið rammaskipulag fyrir 40 hektara athafnasvæði ofan við Borgarnes sem þarf að vera til reiðu fyrir uppbyggingu atvinnulífs í Borgarnesi á næstu árum. Brátt verður hafist handa við að reisa viðbyggingu við Grunnskólann í Borgarnesi. Þar með næst fram markmið um einsetningu grunnskólans en um leið getur hann tekið við töluverðri aukningu nemenda.
Áhrif Bifrastar munu fara vaxandi
Viðskiptaháskólinn á Bifröst mun senn kynna áform um umtalsverða aukningu á sinni starfsemi á allra næstu árum í framhaldi af samningi við Menntamálaráðuneytið. Það er viðurkennt að starfsemi háskólanna í Borgarfirði hefur orðið til þess að efla samfélagið á svæðinu mikið. Viðskiptaháskólinn hefur leitað til Borgarbyggðar um samstarf varðandi uppbyggingu á Bifröst en fyrir rekur Borgarbyggð þar leikskóla. Frekara samstarf mundi fela í sér að sveitarfélagið taki að sér að hluta eða öllu leyti verkefni sem snúa að gatnagerð, veitumálum og fleiru á staðnum. Bæjarstjórn Borgarbyggðar hefur tekið jákvætt í erindi Viðskiptaháskólans og væntir þess að með því geti bæjarfélagið stuðlað að enn öflugra og umfangsmeira skólastarfi í héraðinu sem skili sér víða í samfélaginu þegar fram líða stundir.
Tekjur sveitarfélaga
Ég læt þessar hugleiðingar nægja að sinni. Verkefni sveitarfélaga eru mörg og flest afar þörf. Því miður er ekki hægt að uppfylla óskir allra. Fjárhagur sveitarfélaga er almennt þröngur á Íslandi og aðhald nauðsynlegt. Breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga sem samþykktar voru á Alþingi nú í desember nægja því miður engan veginn til þess að rétta af fjárhag sveitafélaganna. Ætlast verður til þess að hér sé aðeins um áfanga að ræða í breytingum á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Einnig eru vonir bundnar við samkomulag um að lagafrumvörp og stjórnvaldsákvarðanir sem hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga verði kostnaðarmetin í framtíðinni. Þannig á að vera ljóst hverju sinni hvaða tekjur þurfa að fylgja nýjum skyldum sem sett verða á sveitarfélögin.
Ég óska íbúum Borgarbyggðar og vestlendingum öllum gleðilegra jóla með þökkum fyrir samstarfið á árinu og ósk um farsæld á því nýja.
Stefán Kalmansson