Aukasýning á Litlu hryllingsbúðinni

nóvember 22, 2012
Frá leikfélagi Menntaskóla Borgarfjarðar:
Við þökkum frábærar viðtökur á sýningunni okkar, Litlu hryllingsbúðinni. Miðarnir seljast og seljast og vegna fjölda áskoranna höfum við ákveðið að hafa aukasýningu, sunnudaginn 25. nóvember kl. 17.00. Við ákváðum þennan tíma sérstaklega með fjölskyldufólk í huga og hlökkum við til að sjá sem flesta unga sem aldna.
Miðasala í síma: 616-7417 eða 862-8582, einnig er hægt að senda póst á netfangið: leikfelag@menntaborg.is
Um sýninguna:
Litla hryllingsbúðin segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann vinnur í lítilli blómabúð í skuggahverfi borgarinnar, hjá Músnikk, sem tók Baldur í fóstur. Viðskiptin ganga fremur illa og blómabúðin er um það bil að leggja upp laupana. Í blómabúðinni vinnur einnig Auður, sæt ljóska sem Baldur er ástfanginn af. En hún á kærasta, leðurklæddan og ofbeldisfullan tannlækni, sem ferðast um á mótorhjóli og beitir Auði ofbeldi. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu, sem hann nefnir Auði II. Eftir því sem plantan vex og dafnar aukast viðskiptin stöðugt meira í blómabúðinni og Baldur verður sífellt vinsælli. Kvöld eitt uppgötvar hann að plantan getur talað og hún lofar honum frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Matarvenjur plöntunnar eiga eftir að hafa skelfilegar afleiðingar.
 

Share: