Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2016

maí 12, 2017
Featured image for “Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2016”

Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2016;

Góð rekstrarafkoma og traustur efnahagur.

Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2016 var afgreiddur í sveitarstjórn Borgarbyggðar við seinni umræðu þann 11. maí sl.

Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta. Annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur sveitarsjóðs sem að mestu leyti er fjármagnaður með skatttekjum. Hins vegar er B-hluti sem eru stofnanir í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta Borgarbyggðar fellur sorphirða, félagslegar íbúðir, Reiðhöllin Vindási, fjallskilasjóðir, fasteignir Hjálmakletts og fjármögnun Hjúkrunarheimilisins að Brákarhlíð.

Niðurstöður og lykiltölur ársreikningsins bera með sér að rekstur sveitarfélagsins gekk vel á árinu 2016. Afkoma sveitarsjóðs er mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá er efnahagur sveitarfélagsins traustur. Verulegur viðsnúningur hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins á síðustu árum.

  • Rekstrarniðurstaða í samstæðu A+B hluta er 427,1 m.kr. að teknu tilliti til reiknaðra liða. Það er 196,1 m.kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Rekstrartekjur A-hluta sveitarsjóðs eru 3.582,6 m.kr., þar af voru skatttekjur 1.992 m.kr. og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 1.018 m.kr. Heildartekjur í samstæðu A+B hluta voru 3.935 m.kr. sem eru 347 m.kr. hærri fjárhæð en áætlað var í fjárhagsáætlun.
  • Laun og launatengd gjöld námu alls 2.045 m.kr. hjá A+B hluta samstæðu en 1.898 m.kr. hjá A-hluta. Stöðugildi í árslok voru 257 og hafði þeim fjölgað um 1,8 á árinu. Kaup á vörum og þjónustu voru 1.243 m.kr. hjá A+B hluta og 1.139 m.kr. hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld voru 37,9 m.kr. hjá A+hluta.
  • Veltufé frá rekstri var 506,3 m.kr. hjá A+B hluta (364 m.kr. 2015) og 544 m.kr. hjá A-hluta (266 m.kr. 2015). Það gerir 14,1% af heildartekjum hjá A-hluta sem er hækkun frá 8,5% á fyrra ári.
  • Eignir voru seldar fyrir 237 m.kr. á árinu.
  • Langtímaskuldir A-hluta eru einungis 2,5 * hærri en veltufé frá rekstri miðað við að þær voru tæplega sexfalt veltufé á árinu 2015.
  • Veltufjárhlutfall (hlutfall lausaskulda og lausafjármuna) er 1,58 miðað við 0,83 á sl. ári.
  • Skuldahlutfall A+B hluta er 119% og fyrir A-hluta er það 77%. Í sveitarstjórnarlögum er miðað við að skuldahlutfall fari ekki yfir 150%.
  • Afborganir langtímalána voru 273 m.kr á árinu 2017 og lækkuðu langtímaskuldir A+B hluta um 253 m.kr. milli ára.
  • Skuldaviðmið var 78% fyrir A+B hluta í árslok og 56% fyrir A-hluta.
  • Heildarskuldir A+B hluta eru 4.671 m.kr. og heildarskuldir A-hluta 2.767 m.kr. Lífeyrisskuldbindingar eru 788 m.kr. og hækkuðu þær um 77 m.kr. á árinu. Eiginfjárhlutfall er A+B hluta er 35% en A-hluta 48%.
  • Handbært fé í árslok var alls 641 m.kr. hjá A+B hluta.
  • Fjárfestingar voru minni á árinu 2016 en ætlað var þar sem undirbúningur fyrirhugaðra fjárfestinga var tímafrekari en ætlað var. Fjárfest var fyrir 68 m.kr. hjá A+B hluta en eignir seldar fyrir 236 m.kr.
  • Íbúar Borgarbyggðar voru 3.679 í árslok 2016 og hafði fjölgað um 39 frá árinu á undan.
  • Rekstur sveitarfélagsins stóð sterkum fótum á árinu og efnahagsleg staða er sterk. Það er ánægjuefni því góður rekstur og sterkur efnahagur eykur svigrúm sveitarfélagsins til aðgerða íbúunum til hagsbóta. Í mörg horn er að líta í þeim efnum.
  • Starfsfólki sveitarfélagsins er þakkað gott samstarf við rekstur sveitarfélagsins á árinu. Sá árangur sem náðst hefur við að bæta rekstur sveitarfélagsins hefði ekki náðst nema með öflugu starfsfólki sem vinnur þétt með kjörnum fulltrúum.

Allar nánari upplýsingar um ársreikning Borgarbyggðar gefur sveitarstjóri Borgarbyggðar Gunnlaugur A. Júlíusson (gunnlaugur@borgarbyggd.is) og fjármálastjóri Borgarbyggðar, Eiríkur Ólafsson, (eirikur@borgarbyggd.is)


Share: