Ársreikningur 2001

maí 17, 2002
Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 16. maí s.l. var ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2001 tekin til seinni umræðu og samþykktur.

Skatttekjur námu 560,7 mkr á árinu 2001, sem er 12,4% hækkun frá fyrra ári. Rekstrargjöld málaflokka að frádregnum þjónustutekjum námu 533,3 mkr sem var 20,2% hækkun milli ára. Framlegð fyrir fjármagnsliði nam 27,4 mkr en var áætluð 64,1 mkr. Gjaldfærð og eignfærð fjárfesting bæjarsjóðs nam 252,6 mkr á árinu sem var í samræmi við áætlanir. Byggt var við Grunnskólann í Borgarnesi fyrir 107 mkr vegna einsetningar og 74 mkr varið til gatnagerðar. Nettó fjármagnskostnaður nam 43,2 mkr á árinu 2001.
Rekstrargjöld bæjarsjóðs námu 95% af skatttekjum á árinu 2001 samanborið við 89% árið áður. Kostnaður við rekstur málaflokka fór 39 mkr fram úr áætlun sem skýrist af mun meiri launahækkunum vegna nýrra kjarasamninga en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samhliða koma fram hækkanir á áunnum réttindum, sem leiða til verulegrar hækkunar lífeyrisskuldbindinga Við þessi áhrif kjarasamninga síðasta árs bætist svo niðurfærsla viðskiptakrafna umfram áætlanir. Í árslok 2001 námu skuldir bæjarsjóðs 746 mkr, auk lífeyrisskuldbindinga að fjárhæð 169 mkr. Skuldir á hvern íbúa voru 296 þús. krónur.
Ársreikningur fyrir árið 2001 endurspeglar miklar framkvæmdir hjá Borgarbyggð. Þar vega þyngst annars vegar stækkun Grunnskólans í Borgarnesi vegna einsetningar og hins vegar framkvæmdir við gatna- og holræsagerð í Borgarnesi og á Bifröst. Þetta eru fjárfestingar sem hafa það að markmiði að styrkja og efla samfélagið í Borgarbyggð til framtíðar.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur verið gerð grein fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og er niðurstaða hennar í framhaldi af því að nefndin sjái ekki ástæðu til að hafa fjármál sveitarfélagsins lengur til sérstakrar skoðunar. Fjárhagsáætlanir næstu ára gera ráð fyrir bættri framlegð af rekstri sveitarfélagsins.

Share: