Ársreikningur 2000

maí 11, 2001

Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 10. maí var ársreikningur Borgarbyggðar tekin til seinni umræðu og samþykktur. Ársreikningurinn samanstendur af ársreikningi bæjarsjóðs, framkvæmdasjóðs og félagslegum íbúðum.

Skatttekjur bæjarsjóðs námu 498,9 mkr á árinu 2000, samanborið við 442,6 mkr árið áður sem er 12,7% hækkun. Skatttekjur samanstanda af útsvari, fasteignasköttum og framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Rekstrargjöld málaflokka námu 565,7 mkr en á móti koma ýmsar þjónustutekjur að fjárhæð 122,0 mkr. Rekstur málaflokka bæjarsjóðs að frádregnum þjónustutekjum nam því 443,7 mkr og framlegð fyrir fjármagnsliði 55,2 mkr sem er hækkun um 20 mkr milli ára. Nettó framkvæmdir bæjarsjóðs námu 82,1 mkr á árinu 2000. Helstu framkvæmdir voru við gatnagerð, Grunnskólann í Borgarnesi og lokið var við smíði Gámastöðvar. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur bæjarsjóðs voru 19,7 mkr. Niðurstaða af ársreikningi bæjarsjóðs Borgarbyggðar að meðtöldum fjárfestingum var því neikvæð um 46,6 mkr sem er nokkru betri niðurstaða en rekstraráætlun gerði ráð fyrir.
Í árslok 2000 námu skuldir bæjarsjóðs 493,5 mkr sem gerir skuldir á hvern íbúa 200 þús. krónur. Í efnahagsreikningi eru auk þess færðar lífeyrisskuldbindingar að fjárhæð 134,2 mkr. Rekstur málaflokka nam 89% af skatttekjum á árinu samanborið við 92% árið áður.
Framkvæmdasjóður Borgarbyggðar var rekinn með 4,7 mkr tapi á árinu 2000. Hlutverk framkvæmdasjóðs er fyrst og fremst eignarhald á hlutum Borgarbyggðar í nokkrum fyrirtækjum.
Rekstur félagslegra íbúða var við núllið á árinu 2000. Skuldir félagslega íbúðakerfisins voru 232,7 mkr í árslok sem er óbreytt staða milli ára. Í árslok 2000 voru alls 83 íbúðir í Borgarbyggð sem byggðar voru samkvæmt lögum um Byggingarsjóð verkamanna. Þar af voru 36 leiguíbúðir í eigu Borgarbyggðar en kaupskylda hvílir á bæjarsjóði vegna 47 íbúða.
Í heild var niðurstaðan í ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2000 heldur betri en áætlað var. Þar kemur annars vegar til að skatttekjur voru meiri en áætlað var og hins vegar að framkvæmdir urðu heldur minni en gert var ráð fyrir, sem skýrist af seinkun verkefna. Umtalsverðar framkvæmdir eru áformaðar á árinu 2001, einkum í gatnagerð og framkvæmdum við stækkun Grunnskólans í Borgarnesi sem verður einsetin haustið 2001. Rekstur málaflokka sveitarfélagsins var að mestu í samræmi við áætlanir. Áfram verður unnið að því að auka framlegð til fjármagnskostnaðar og framkvæmda en ljóst að nýgerðir kjarasamningar munu fela í sér töluverðar kostnaðarhækkanir á árinu 2001.

Sjá nánar (PDF snið):
Efnahagsreikningur
Fjármagnsyfirlit
Rekstrar- og framkvæmdayfirlit
Raunbreyting á peningalegri stöðu
Lykiltölur


Share: