Á íbúafundi um merkingu eyðibýla og gamalla húsa í Menntaskóla Borgarbyggðar í gærkvöldi, 8. september, kynnti Jónína Arnardóttir nefndarmaður í menningarnefnd Borgarbyggðar samstarfsverkefni menningar- umhverfis- og landbúnaðarnefndar sem fólgið er í því að merkja þau hús sem eru eldri en frá 1950 annarsvegar og hinsvegar eyðibýli.
Þá tók Margrét Guðjónsdóttir við og fjallaði um verndun menningarminja og mikilvægi þess að viðhalda sögu gamalla húsa. Margrét hefur verið ráðin í tengslum við aðalskipulagsvinnu sveitarfélagsins til að gera víðtæka húsakönnun í Borgarbyggð. Eftir erindi hennar spunnust miklar umræður um einstaka hús í héraðinu. Þá tók Björg Gunnarsdóttir umhverfis- og kynningarfulltrúi Borgarbyggðar við og ræddi útlit skilta og kostnað við þau. Listi var látinn ganga á fundinum þar sem fólk gat skráð sig, hús sín og eyðibýli.
Myndir: Guðrún Jónsdóttir