Þann 7. september 2020 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar á fundi sínum, breytingar á skipuriti sveitarfélagsins. Tilgangurinn var að efla gæða- og ferlamál, auka þverfaglegt teymisstarf, styðja við nýsköpun, mannauðsmál, stafrænar breytingar og umbætur á verklagi með það að leiðarljósi að bæta þjónustu. Aðdragandi þessara breytinga var langur en lagt var í mikla greiningarvinnu sem leiddi í ljós annmarka sem þurfti að bregðast strax við með markvissum hætti. Ljóst var að það þurfti að bæta þjónustu við íbúa og aðra sem leita til sveitarfélagsins, samræma þjónustu, auka gagnsæi, auka starfrænar leiðir og gera boðleiðir erinda skilvirkari. Þessar breytingar voru til þess fallnar að auka ánægju á meðal íbúa, bæta búsetuskilyrði, styrkja samband og samtal, auka samkeppnishæfni og bæta atvinnulíf.
Nú er ár liðið frá skipuritsbreytingum og mikið umbótastarf hefur átt sér stað í stjórnsýslu sveitarfélagsins, sú vinna mun halda áfram á komandi mánuðum. Má þar helst nefna hertara utanumhald á innkaupum sveitarfélagsins, bætt eftirlit og eftirfylgni með framkvæmdum, gerð gæðahandbókar og þar með aukið gagnsæi stjórnsýslunnar, innleiðing þjónustustefnu og efling þjónustuvers.
Umfangsmikil vinna heldur nú áfram við gerð verkferla m.a. í skipulags- og byggingardeild. Mikil endurnýjun hefur orðið á starfsmönnum á því sviði í ár, en skemmst er frá því að segja að sá starfsmaður deildarinnar sem er með lengstan starfsaldur, hóf störf í janúar á þessu ári. Nýr deildarstjóri og skipulagsfulltrúi tóku til starfa í upphaf árs, í vor bættust við tveir verkefnastjórar og að lokum kom nýr byggingarfulltrúi og verkefnastjóri í haust. Um er að ræða kröftugt og metnaðarfullt teymi sem hefur einsett sér að einfalda og stytta meðferð erinda ásamt því að auka gagnsæi til muna. Nú þegar má nálgast samþykktir sveitarstjórnar á skipulagsáætlunum á vefsíðu sveitarfélagsins, leiðbeiningar um skipulagsmál, skipulagsauglýsingar ásamt greinagóðum upplýsingum um byggingarmál.
Á komandi mánuðum stendur til að hanna umsóknir og aðgengi að þjónustu sveitarfélagsins út frá þörfum notenda og hámarka þannig þjónustuupplifun íbúa og viðskiptavina Borgarbyggðar. Auk þess stendur til að gera vikuleg skil á verkefnum sveitarfélagsins með rafrænni dagbók sem sveitarstjóri mun gefa út í þeim tilgangi að veita íbúum innsýn í stjórnsýsluna.
Borgarbyggð er auðugt sveitarfélag líkt og markaðsherferð sumarsins sýndi bersýnilega. Í nálægð við það sem skiptir máli, hér er gott að vaxa og blómstra, hér er lífið næs. Nú er tíminn til þess að taka höndum saman og vinna markvisst að því að búa til jákvætt og gott samfélag í sameiningu.
Lífið bíður þín í Borgarbyggð.
Mynd: Starfsmenn skipulags- og byggingardeildar ásamt sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og þjónustusviðs.