Við eigum öll okkar þátt í mengun í vatni og sjó og því er það í okkar höndum að draga úr henni. Það á aðeins þrennt að fara í klósettið: Piss, kúkur og klósettpappír. Klósettið er enginn staður fyrir eyrnapinna, bómullarhnoðra, blautklúta, smokka og annað rusl. Þessir hlutir eiga að enda í ruslatunnunni. Auðvitað er svo besta lausnin að nota sem minnst af einnota hreinlætisvörum.
Úrgangur í fráveitu er vandamál alls staðar á landinu. Auk þess að valda skaða á umhverfinu og rekstri fráveitukerfa, verða sveitarfélög fyrir miklum kostnaði þegar hreinsa þarf dælur og farga úrgangi sem berst í fráveitukerfin. Það erum jú við sem greiðum fyrir þjónustu við fráveiturnar – því meiri úrgangur, því meiri hreinsun þarf með tilheyrandi kostnaði. Þegar álag er mikið aukast einnig líkur á bilunum í búnaði þannig að skólp fer óhreinsað út í sjó sem getur valdið hættu bæði fyrir menn og dýr. Þá hafa húslagnir einnig stíflast vegna blautklúta, en þá lendir kostnaður við úrbætur sem og óþægindi á íbúum og eigendum.
Verkefnið „bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið“ er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar og Samorku í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda á landinu og er markmið þess að draga úr rusli í fráveitu og þar með álagi á umhverfið okkar.