Afkoma Borgarbyggðar mun betri en áætlað var

apríl 18, 2012
-sveitarfélagið bætir þjónustu við íbúana í ljósi rekstrarniðurstöðunnar
Rekstur Borgarbyggðar gekk mun betur á árinu 2011 en gert hafði verið ráð fyrir, sem skýrist m.a. af því að skatttekjur voru meiri en áætlað var, rekstrarkostnaður var að mestu leiti í samræmi við áætlun og fjármagnskostnaður reyndist nokkru minni en ætlað var vegna breytinga á lánum í erlendri mynt.
Þetta kemur fram í ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2011 sem lagður var fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar í gær, 17. apríl. Síðari umræða sveitarstjórnar verður 10. maí nk.
Íbúar Borgarbyggðar njóta strax góðrar afkomu sveitarfélagsins og má þar nefna sérstakt atvinnuátak, lengingu starfstíma vinnuskólans, stofnun námsvers fyrir einhverf börn, átak til að efla brunavarnir í skólum og síðast en ekki síst var ákveðið að falla frá því að hækka leikskólagjöld.
 
Borgarbyggð var meðal þeirra sveitarfélaga sem efnahagshrunið 2008 bitnaði hvað harkalegast á. Samstaða sveitarstjórnar og samstillt átak starfsmanna við framkvæmd og eftirfylgni aðgerða, sem margar hverjar voru sársaukafullar, gerði það kleift að snúa rekstri sveitarfélagsins til betri vegar á skömmum tíma.
 
· Heildartekjur sveitarsjóðs Borgarbyggðar og B-hluta fyrirtækja voru 2.534 milljónir króna á árinu 2011 en rekstrarútgjöld án fjármagnsliða voru 2.221 milljónir kr. Framlegð sveitarfélagsins var því um 17%. Fjármagnsgjöld voru alls 95 milljónir kr.
· Samantekin rekstrarniðurstaða Borgarbyggðar á árinu 2011 var jákvæð um 217 milljónir kr., sem er tæplega 176 milljónum kr. betri útkoma en endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
· Veltufé frá rekstri var 296 milljónir kr. eða 11,7% af rekstrartekjum, 129 milljónum kr. meira en áætlað var.
· Heildarskuldir og skuldbindingar voru 4.481 milljónir kr. Afborganir langtímalána námu 220 milljónum kr. og stóð veltufé frá rekstri undir þeim. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok var 1.363 milljónir kr. eða 23%.
· Sveitarfélagið fjárfesti fyrir 447 milljónir kr. í varanlegum rekstrarfjármunum, þar af í hjúkrunarálmu við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi fyrir 413 milljónir kr. Eignir sveitarfélagsins voru í árslok að andvirði 5.845 milljónir kr.
· Heildarskuldir Borgarbyggðar í hlutfalli af tekjum eru samkvæmt ársreikningi 177%. Þar með eru talin lán vegna hjúkrunarálmunnar við dvalarheimili aldraðra. Í tillögu að fjármálareglum sveitarfélaga er gert ráð fyrir að draga megi frá þær skuldbindingar sem tryggðar eru með leigugreiðslum frá ríkissjóði og því mun skuldaviðmið Borgarbyggð lækka sem því nemur.
Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri
 

Share: