Rekstur Borgarbyggðar gekk mun betur á árinu 2012 en gert hafði verið ráð fyrir, sem skýrist m.a. af því að skatttekjur voru meiri en áætlað var og fjármagnskostnaður reyndist nokkru minni en áætlun gerði ráð fyrir vegna endurútreiknings á vöxtum á láni í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arionbakna.
Þetta kemur fram í ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2012 sem lagður var fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar 18. apríl s.l.. Síðari umræða sveitarstjórnar verður 16. maí nk.
· Heildartekjur sveitarsjóðs Borgarbyggðar og B-hluta fyrirtækja voru 2.758 milljónir króna á árinu 2012 en rekstrarútgjöld án fjármagnsliða voru 2.528 milljónir kr. Framlegð sveitarfélagsins var því um 13%. Fjármagnsgjöld voru alls 137 milljónir kr.
· Samantekin rekstrarniðurstaða Borgarbyggðar á árinu 2012 var jákvæð um 94 milljónir kr., sem er tæplega 59 milljónum kr. betri útkoma en endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
· Veltufé frá rekstri var 254 milljónir kr. eða 9,2% af rekstrartekjum, 30 milljónum kr. minna en áætlað var.
· Heildarskuldir og skuldbindingar voru 4.681 milljónir kr. Afborganir langtímalána námu 216 milljónum kr. og stóð veltufé frá rekstri undir þeim. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok var 1.522 milljónir kr. eða 25%.
· Sveitarfélagið fjárfesti fyrir 344 milljónir kr. í varanlegum rekstrarfjármunum, þar af í hjúkrunarálmu við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi fyrir 273 milljónir kr. Eignir sveitarfélagsins voru í árslok að andvirði 6.203 milljónir kr.
· Heildarskuldir Borgarbyggðar í hlutfalli af tekjum eru samkvæmt ársreikningi 170%. Í fjármálareglum sveitarfélaga er gert ráð fyrir að draga megi frá þær skuldbindingar sem tryggðar eru með leigugreiðslum frá ríkissjóði sem og lífeyrisskuldbindingar sem koma til greiðslu eftir 16 ár. Að teknu tilliti til þessa er skuldaviðmið Borgarbyggðar 136% í hlutfalli af tekjum. Viðmið sveitarstjórnarlaga er að skuldaviðmiðið sé undir 150%.
Í ljósi þess að í árslok 2012 reyndist handbært fé sveitarfélagsins vera rúmar 251 milljónir, eða mun hærra en áætlað hafði verið hefur nú þegar verið gripið til þess ráðs að greiða af lánum með óhagstæðum vaxtakjörum. Alls hefur verið varið 105 milljónum til lækkunar skulda á árinu 2013 umfram það sem áætlað er.