Afhending grænfánans til Grunnskólans í Borgarnesi og friðlýsing Einkunna

maí 22, 2006
Það var margt um manninn við Grunnskólann í Borgarnesi s.l. föstudag. Við hátíðlega athöfn afhenti Sigríður Anna Þórðardóttir ráðherra skólanum grænfánann, en grænfáninn er alþjóðlegt verkefni sem
nýtur virðingar víða um Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Það er ljóst að umhverfisnefnd skólans sem hafði veg og vanda að undirbúningi umsóknarinnar um fánann hefur unnið frábært starf.
Að athöfn lokinni var nemendum, starfsmönnum og gestum boðið upp á grillaðar pylsur og djús. Síðan gafst öllum kostur á að skoða ýmis verkefni sem nemendur hafa unnið að undanförnu í skólanum.

Við athöfnina var jafnframt undirrituð auglýsing um friðlýsingu Einkunna sem fólkvangs. Árið 2004 var skipaður vinnuhópur um framtíð svæðisins og hópurinn lagði til að Eikunnir yrðu gerðar að fólkvangi og var tillaga hópsins samþykkt í bæjarstjórn síðastliðið haust. Í markmiðsgrein friðlýsingarinnar segir: „Markmið með friðlýsingu svæðisins Einkunna sem fólkvangs er að vernda jarðmyndanir og votlendi í þágu útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu”.
Það má því með sanni segja að s.l. föstudagur hafi verið dagur umhverfisins í Borgarbyggð.

 

Share: