Fimmtudaginn 5. desember frá kl. 18 til 20 verður Aðventa Gunnars Gunnarssonar lesin í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar þýðanda og skálds frá Reykjum í Lundarreykjadal. Þetta er tveggja tíma törn og við þiggjum gjarnan aðstoð sjálfboðaliða við lesturinn. Gestir eru velkomnir hvenær sem er til að hlýða á styttri kafla eða alla bókina.
Við þetta tækifæri bjóðum við upp á kaffi og piparkökur og hún Ingibjörg Jónasdóttir ætlar að spinna á rokk fyrir okkur á meðan á lestri stendur. Það verður gert í minningu Benóníu Jónsdóttur (1872-1946) sem var fædd á Gilsbakka í Hvítársíðu, dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Sigurbjargar Steingrímsdóttur sem síðar bjuggu í Suddu í Reykholtsdal og fluttu til Ameríku vorið 1898.
Nýverið áskotnaðist Byggðasafni Borgarfjarðar rokkur úr eigu Benóníu og var hann smíðaður af Árna Þorsteinssyni smið á Brennistöðum í Flókadal. Rokkinn má sjá á örsýningu þar sem lesið verður. Árni var fæddur 1860 og lést árið 1939. Hann var smiður bæði á tré og járn, hinn mesti þjóðhagi.
Það var Svanhildur Ólafsdóttir dótturdóttir Benóníu sem gaf rokkinn til safnsins.
Hlökkum til að sjá ykkur!
F. h. starfsfólks
Guðrún Jónsdóttir