Aðventuhátíð Borgarbyggðar

desember 6, 2023
Featured image for “Aðventuhátíð Borgarbyggðar”

Fyrsti sunnudagur í aðventu var um helgina og af því tilefni voru ljósin tendruð á jólatrénu í Skallagrímsgarði. Fjölbreytt dagskrá var fyrir alla fjölskylduna og fjöldi gesta lagði leið sína í Safnahúsið og Skallagrímsgarð. 

Dagskráin byrjaði með jólastund í Safnahúsi Borgarbyggðar þar sem boðið var uppá jólaföndur, litla jólasýningin var opnuð og Katla Njálsdóttir söng- og leikkona hélt uppi léttri jólastemmningu með ljúfum tónum.

Því næst lá leiðin í Skallagrímsgarð þar sem sveitarstjóri fór með jólahugvekju og kveikti á jólatréinu. Sylvía Erla og Árni Beinteinn úr Bestu lögum barnanna voru með jólasyrpu og Jógvan Hansen lokaði svo dagskránni með jólalögum á meðan börnin dönsuðu í kringum jólatréð með nokkrum hressum jólasveinum sem komu ofan úr fjöllum.

Kalt var í veðri en milt og fallegt og því notalegt að standa úti, gæða sér á heitu súkkulaði frá útskriftarhópum grunnskólanna í Borgarbyggð og fylgjast með tónlistaratriðum og jólasveinum sem lögðu leið sína í bæinn. 

Borgarbyggð vill koma á framfæri þökkum til allra sem komu að dagskránni. Sérstakar þakkir fá starfsmenn Áhaldahúsins fyrir þeirra framlag.

Ljósm: Gunnhildur Lind photography


Share: