Aðventuhátíð

desember 7, 2006
Sannkölluð aðventuhátíð er nú í héraði og er hér vakin athygli á nokkrum uppákomum: Í kvöld kl. 21.00 er síðasta sýningin af leikritinu „Maður í mislitum sokkum“ eftir Arnmund Backman í Félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit. Þessi sýning leikdeildar Ungmennafélagsins Íslendings hefur hlotið mjög góða dóma og fólk skemmt sér konunglega.
Í Landnámssetri í Borgarnesi er vegleg bókmenntadagskrá í kvöld. Þar verða tvær bækur í sviðsljósinu, „Ballaðan um Bubba Morthens“ og „Morðið í Rockville“ (Stella Blómkvist). Dagskráin er skipulögð í samstarfi Safnahúss Borgarfjarðar og Landnámsseturs og hefst kl. 20.30.
Einnig skal minnt á Jólamarkað Ullarselsins á Hvanneyri frá kl. 16.00 – 19.00 í dag, sjá nánar í næstu frétt hér á eftir.
Á morgun (föstudag) er svo Jólaskemmtun Freyjukórsins og ungs tónlistarfólks í Borgarfirði. Skemmtunin er í Reykholtskirkju og hefst kl. 20.30. Meðal annars verður frumfluttur íslenskur jólatexti. Stjórnandi kórsins er Zsuzsanna Budai og kynnir er Unnur Halldórsdóttir.
Á morgun kl. 20.30 heldur bókaveislan í Landnámssetri svo áfram með Einari Má Guðmundssyni sem les úr ljóðabók sinni „Ég stytti mér leið framhjá dauðanum“ en sú bók hefur hlotið frábæra dóma. Tveir snilldartónlistarmenn stíga á svið með Einari, þau Börkur Hrafn Birgisson og Elísabet Eyþórsdóttir.
 
 

Share: