Aðkoma Borgarbyggðar að deilum vegna legsteinaskála

ágúst 9, 2021
Featured image for “Aðkoma Borgarbyggðar að deilum vegna legsteinaskála”

Þann 7. apríl 2020 greindi Borgarbyggð síðast frá því opinberlega í yfirlýsingu á heimasíðu sinni hver staðan væri í svokölluðu Húsafellsmáli. Það sem deilt hefur verið um byggingu legsteinskála á landi Bæjargils.

Sú niðurstaða að hafið sé niðurrif á legsteinaskálanum, er vegna þess að ekki náðist sátt á milli aðila, en Borgarbyggð hefur ekki valdheimildir til þess að beita sér frekar í málinu en gert hefur verið. Sveitarfélagið hefur gert allt sem því er mögulegt til að leysa málið í samráði við aðila þess, eins og nánar er kveðið á hér að neðan.

Fyrir um ári síðan var hafin vinna við tillögur að breytingu aðalskipulags á svæðinu og bauð Borgarbyggð málsaðilum að Húsafellssvæðinu að gerð sameiginlegs deiliskipulags sem yrði unnið í sátt milli aðila. Borgarbyggð bauðst til þess að hafa milligöngu um og greiða fyrir gerð og undirbúningsvinnu vegna sameiginlegs deiliskipulags til að liðka til í málinu.

Hinn 31. ágúst 2020 var undirritað samkomulag f.h. Borgarbyggðar, Sæmundar Ásgeirssonar eiganda Gamla bæjar og Páls Guðmundssonar eiganda Bæjargils, þar sem m.a. var staðfest að aðilar væru samþykkir því að samhliða vinnu við breytingu á aðalskipulagi yrði unninn undirbúningur að deiliskipulagi fyrir Húsafellssvæðið þar sem nánari landnotkun landeigenda að Húsafelli yrði skilgreind. Þá var ákveðið að láta á það reyna hvort aðilar gætu náð samkomulagi um helstu forsendur og efnisatriði deiliskipulags sem næði til þeirra fasteigna sem þegar væru á svæðinu sem og önnur ágreiningsefni varðandi skipulags- og byggingarmál fasteigna að Gamla bæ og Bæjargili. Borgarbyggð réð skipulagshönnuð sem gerði tillögur að meginforsendum deiliskipulags sem aðilum var svo boðin þátttaka að og samráðsferli hófst. Margar tillögur að forsendum deiliskipulags voru unnar vegna Húsafells sunnan þjóðvegar, þar sem tekið var tillit til athugasemda hvers aðila, en tilgangurinn var að reyna að ná saman deiliskipulagi sem allir gætu sæst á.

Tilgangur samkomulagsins var að skapa vettvang og tíma til að láta reyna á hvort unnt væri að ljúka efnislegum ágreiningi milli aðila. Samkomulagið gilti til 15. október 2020 en var framlengt í þrígang með viðaukum og sá síðasti gilti til 15. desember 2020. Allan þann tíma sem samkomulag var í gildi voru mikil samskipti milli lögmanns sem Borgarbyggð réð til að vinna að tillögu að sátt og fulltrúa Gamla bæjar og Bæjargils. Sveitarstjóri og forseti sveitarstjórnar voru í miklum samskiptum við lögmanninn og tóku jafnframt þátt í ýmsum samskiptum aðila á milli. Sveitarstjóri upplýsti byggðarráð reglulega um stöðu mála.

Umræðum aðila miðaði ágætlega og hafði Borgarbyggð væntingar um að sátt myndi nást. Þann 1. desember 2020 gerði lögmaður Borgarbyggðar drög að samningi milli sveitarfélagsins, eigenda Gamla bæjar og Bæjargils, og tóku lögmenn þeirra þátt í því að leggja grunninn að efni samningsins, þar sem margir fundir og miklar umræður fóru fram í aðdraganda þess að drögin voru rituð. Á þessum tíma lá fyrir 4. útgáfa af tillögum að forsendum deiliskipulags sem höfðu farið í gegnum samráðsferli og voru eigendur Gamla bæjar og Bæjargils að mestu sátt við. Það þurfti þó að útkljá ákveðin atriði eins og aðgengi að bílastæði og kostnaðarskiptingu við vegagerð. Fulltrúar Gamla bæjar og Bæjargils funduðu með lögmanninum um samningsdrögin 2. desember 2020 og voru þeir sáttir við framsetninguna en áttu eftir að fara yfir skjalið með umbjóðendum sínum. Þann 14. desember sl. lagði lögmaðurinn til við fulltrúa eigenda að reynt yrði til þrautar að ljúka sáttaferlinu með því að gera fjórða viðaukann um framlengingu við samkomulagið sem fyrst var undirritað 31. ágúst, en var því hafnað alfarið af fulltrúa eiganda Gamla bæjar og lauk þar með því sáttaferli sem sett var af stað með fyrrgreindu samkomulagi án þess að sátt næðist milli aðila. Í sumar hefur verið leitað til Borgarbyggðar um að taka upp sáttaumleitanir að nýju og hefur sveitarfélagið tekið jákvætt í það. 

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri

 


Share: