Frá fundi OR |
Borgarbyggð er einn eigenda fyrirtækisins og er eignarhlutur sveitarfélagsins 0.93%. Ljóst er að þættir í aðgerðaáætlunin munu hafa ýmis áhrif fyrir íbúa í Borgarbyggð og á rekstur sveitarfélagsins. Í fyrsta lagi mun frestun á nýframkvæmdum leiða til þess að fráveituframkvæmdum í sveitarfélaginu mun ekki ljúka fyrr en árið 2016, en m.a. er eftir að setja vélbúnað í hreinsistöðina í Borgarnesi og lögn úr hreinstöðinni út í Borgarfjörðinni. Þá mun viðhaldsverkefnum á hitaveitulögninni úr Deildartunguhver í Borgarnes frestast. Í öðru lagi munu gjaldskrár á hitaveitu og fráveitu hækka, gjaldskrá hitaveitu um 8% og gjaldskrá fráveitu um 9.5%. Gjaldskrárhækkun á fráveitu í Borgarbyggð verður mun minni en í öðrum sveitarfélögum þar sem tekið er tillit til þess að framkvæmdir við fráveitu frestast og að fráveitugjöld hafa verið mun hærri í Borgarbyggð en hjá öðrum eigendum Orkuveitunnar. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Borgarbyggð veiti fyrirtækinu víkjandi lán að upphæð 112 milljónir á umræddu tímabili, 75 milljónir á árinu 2011 og 37 milljónir á árinu 2013. Upphæðin tekur mið af hlutfallslegri ábyrgð eigenda á skuldum fyrirtækisins. Í bókun byggðarráðs þar sem áætlunin var samþykkt er gerður fyrirvari um að sveitarfélagið eigi ekki þessa upphæð handbæra, en í bókuninni segir orðrétt „Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkir fyrirliggjandi aðgerðaráætlun Orkuveitu Reykjavíkur sem samþykkt var á fundi stjórnar OR 23.03.2011 með fyrirvara um að Borgarbyggð geti lagt fyrirtækinu til 75 milljónir króna á árinu 2011 þar sem handbært fé er ekki til staðar.“