Aðgerðaráætlun Orkuveitu Reykjavíkur

mars 30, 2011
Frá fundi OR
Í gær var kynnt aðgerðaráætlun sem á að tryggja rekstur Orkuveitu Reykjavíkur til frambúðar.Í áætluninni er gert ráð fyrir að verulega verði dregið úr framkvæmdum og viðhaldsverkefnum, eignir verði seldar, dregið verði úr rekstarkostnaði, gjaldskrár hækki og eigendur láni fyrirtækinu fjármagn.
Borgarbyggð er einn eigenda fyrirtækisins og er eignarhlutur sveitarfélagsins 0.93%. Ljóst er að þættir í aðgerðaáætlunin munu hafa ýmis áhrif fyrir íbúa í Borgarbyggð og á rekstur sveitarfélagsins. Í fyrsta lagi mun frestun á nýframkvæmdum leiða til þess að fráveituframkvæmdum í sveitarfélaginu mun ekki ljúka fyrr en árið 2016, en m.a. er eftir að setja vélbúnað í hreinsistöðina í Borgarnesi og lögn úr hreinstöðinni út í Borgarfjörðinni. Þá mun viðhaldsverkefnum á hitaveitulögninni úr Deildartunguhver í Borgarnes frestast. Í öðru lagi munu gjaldskrár á hitaveitu og fráveitu hækka, gjaldskrá hitaveitu um 8% og gjaldskrá fráveitu um 9.5%. Gjaldskrárhækkun á fráveitu í Borgarbyggð verður mun minni en í öðrum sveitarfélögum þar sem tekið er tillit til þess að framkvæmdir við fráveitu frestast og að fráveitugjöld hafa verið mun hærri í Borgarbyggð en hjá öðrum eigendum Orkuveitunnar. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Borgarbyggð veiti fyrirtækinu víkjandi lán að upphæð 112 milljónir á umræddu tímabili, 75 milljónir á árinu 2011 og 37 milljónir á árinu 2013. Upphæðin tekur mið af hlutfallslegri ábyrgð eigenda á skuldum fyrirtækisins. Í bókun byggðarráðs þar sem áætlunin var samþykkt er gerður fyrirvari um að sveitarfélagið eigi ekki þessa upphæð handbæra, en í bókuninni segir orðrétt „Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkir fyrirliggjandi aðgerðaráætlun Orkuveitu Reykjavíkur sem samþykkt var á fundi stjórnar OR 23.03.2011 með fyrirvara um að Borgarbyggð geti lagt fyrirtækinu til 75 milljónir króna á árinu 2011 þar sem handbært fé er ekki til staðar.“
 
 

Share: