![](https://borgarbyggd.is/images/Mynd_0552914.jpg)
Aðalskipulagið er niðurstaða mikillar vinnu. Greinargerð skipulagsins er tæpar 100 blaðsíður auk umhverfisskýrslu. Þessum skýrslum fylgja þrjú þemakort (göngu- og reiðleiðir, vernduð svæði, óbyggð svæði) og fimm þéttbýliskort (Borgarnes, Bifröst, Hvanneyri, Kleppjárnsreykir, Reykholt og Varmaland).
Ástæða er til að vekja athygli íbúa sérstaklega á eftirfarandi atriðum:
Hverfisvernd húsa setur ákveðna verndarskilmála á hluta gamla bæjarins í Borgarnesi.
Flóðasvæði: Takmarkanir eru settar á uppbyggingu húsa á svæðum sem liggja neðar en í fimm metra hæð yfir sjó.
Verndun landbúnaðarlands: Ákveðnar takmarkanir eru settar á nýtingu „góðs landbúnaðarlands“. Hafa þarf í huga að enn er unnið að lokaútfærslu þessara ákvæða.
Ofangreind atriði eru nýmæli hér í héraðinu og þess vegna er vakin sérstök athygli á þeim. Hins vegar eru fjöldamörg stefnumarkandi atriði í skipulaginu og það er von sveitarstjórnar að með þessu skipulagi skapist nauðsynlegur rammi um framtíðar byggðaþróun í héraðinu.
Allir íbúar Borgarbyggðar eru hvattir til að fara inn á vefinn www.landlinur.is og kynna sér greinargerðina og kortin. Þeim sem ekki geta nálgast gögnin á vefnum er bent á að hafa samband við starfsfólk í ráðhúsi sveitarfélagsins.
Torfi Jóhannesson, formaður skipulags- og bygginganefndar