112 dagurinn í Borgarbyggð – 2015

febrúar 5, 2015
Í tilefni 112 dagsins, sem er að venju þann 11. febrúar, munu viðbragðsaðilar á svæðinu taka höndum saman til að vekja athygli á starfsemi sinni og ítreka mikilvægi þess að þekkja númerið 112 og hlutverk þess.
Í ár verður öryggi og velferð barna í öndvegi og mikilvægi þess að börn og ungmenni geti brugðist rétt við slysum og erfiðum aðstæðum.
Grunnskólarnir munu fá heimsókn frá björgunarsveitunum og Rauða krossinum þar sem lögð verður áhersla á að allir þekki mikilvægi 112 númersins og geti brugðist rétt við aðstæðum sem reyna á skyndihjálp. Grunnskólarnir fengu allir heimsókn frá sjálfboðaliða Rauða krossins í haust þar sem farið var yfir grunnatriði skyndihjálpar. Í skólaheimsóknunum verður einnig tekið á móti myndum sem nemendur á yngsta stigi geta sent inn í teiknisamkeppni fyrir 112 daginn. Teikningarnar verða hengdar upp í Hyrnutorgi á 112 deginum og veitt verðlaun fyrir bestu myndirnar. Gestum og gangandi verður boðið að æfa endurlífgun á skyndihjálpardúkkum, skoða búnað björgunarsveitarfólks, taka skyndihjálparprófið á skyndihjálpar-appinu, fá blóðþrýstingsmælingu, skoða slökkviliðsbílinn og taka þátt í ýmsum leikjum.
Það er von okkar að geta á þennan hátt vakið athygli á hlutverki neyðarvarna, bæði heima og í samfélaginu öllu, og að bæði ungir og aldnir geri sér grein fyrir mikilvægi réttra viðbragða í aðstæðum sem reyna á.
Við viljum jafnframt við þetta tækifæri minna á söfnun á Lúkasi, sem er hjartahnoðtæki sem við vonumst til að geta eignast á svæðið okkar. Söfnunin hefur staðið yfir í nokkra mánuði og vantar nú aðeins herslumuninn. Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta litið við.
Við vonumst til að sjá sem flesta í Hyrnutorgi miðvikudaginn 11.2. á milli kl. 15.00 og 18.00.
F.h. neyðarvarna Borgarbyggðar
Björgunarsveitirnar Brák, Ok, Heiðar og Elliði, Rauði krossinn, lögregla, slökkvilið og Heilbrigðisstofnun Vesturlands
 
 

Share: