Um þessar mundir sjást vinnuvélar og iðnaðarmenn að störfum vítt og breitt um Borgarbyggð. Líkt og undanfarin ár er mikið um byggingarframkvæmdir í sveitarfélaginu. Nokkur stór verkefni eru nú mjög langt komin, en þar má t.d. nefna stækkun og endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi, fjölbýlishús-þjónustuhús-hótel við Borgarbraut 57-59, verslunarhúsnæði við Digranesgötu 4 og nýja hótelið í Húsmæðraskólanum á Varmalandi.
Ekkert lát virðist ætla að verða á framkvæmdagleði í sveitarfélaginu. Það sem af er ári, nú í byrjun júní, hefur byggingarfulltrúi tekið við um 60 nýjum umsóknum og tilkynningum um byggingaframkvæmdir. Allar umsóknir berast nú á rafrænan hátt í gegnum íbúa-/þjónustugátt Borgarbyggðar. Á síðasta ári voru umsóknir í kringum 100 talsins og það sama gildir um árið 2017. Allt útlit er fyrir að umsóknir um byggingarframkvæmdir verði fleiri í ár en árin á undan.
Öllum byggingarframkvæmdum fylgir talsverð umsýsla í samræmi við lög og reglugerðir. Sem dæmi mætti nefna að frá síðustu áramótum hefur byggingarfulltrúi skannað í kringum 800 teikningar inn á Kortasjá/teikningavef Borgarbyggðar – og sífellt er að bætast við. Við minnum á að hægt er að nálgast allar stimplaðar teikningar, ásamt skipulagsgögnum á Kortasjá/teikningavef Borgarbyggðar.
Sjá nánari leiðbeiningar um notkun Kortasjár/teikningavefs hér.
Fréttaskot Umhverfis-og skipulagssviðs nr. 18