Bjarki íþróttamaður Borgarfjarðar 2011

febrúar 22, 2012
Á íþróttahátíð Ungmennasambands Borgarfjarðar sem fór fram síðastliðinn laugardag var afreksfólk síðasta árs heiðrað og tilkynnt um val á Íþróttamanni Borgarfjarðar. UMSB valdi að þessu sinni Bjarka Pétursson kylfing úr Golfklúbbi Borgarness sem Íþróttamann Borgarfjarðar og er þetta annað árið í röð sem Bjarki hlýtur nafnbótina. Bjarki sem fæddur er árið 1994 er með efnilegustu kylfingum landsins. Hann varð Íslandsmeistari unglinga 17-18 ára í höggleik og holukeppni á liðnu ári auk þess sem hann varð klúbbmeistari Golfklúbbsins.
Bjarki keppti fyrir Íslands hönd á Duke of York unglingamóti hjá Royal Liverpool klúbbnum í Bretlandi á síðasta ári. Á mótinu leika landsmeistarar frá 31 landi og hafnaði Bjarki í 16. sæti.
Aðrir sem voru ofarlega í tilnefningum til Íþróttamanns Borgarfjarðar voru þau Tinna Kristín Finnbogadóttir fyrir skák, Birgir Þór Sverrisson fyrir körfubolta, Guðmunda Ólöf Jónsdóttir fyrir sund og Davíð Guðmundsson fyrir körfubolta.

Share: