Staðan á framkvæmdum við Borgarbraut

apríl 13, 2023
Featured image for “Staðan á framkvæmdum við Borgarbraut”

Aðeins til að skýra stöðuna á framkvæmdum við Borgarbrautina og breytingar á þeirri verkáætlum sem upphaflega var lagt upp með. Staðan er gróflega sú núna að þó að ekki hafi tekist að ljúka öllum yfirborðsfrágangi við verkáfanga 1 um áramót, þá náðist að vinna helming af verkáfanga 2 og er verkið því í raun komið lengra en gert var ráð fyrir í upphaflegum verkáætlunum.

Samkvæmt verksamningi og verklýsingu var framkvæmdin upphaflega brotin upp í þrjá áfanga. Fyrsti áfangi sem átti að vinna árinu 2022 var afmarkaður frá gatnamótum Borgarbrautar/Egilsgötu og að fráveitubrunnum framan við Borgarbraut 15. Allri vinnu við þann hluta verksins sem varðar gatnagerð og lagnir lauk síðla árs 2022. Verktaka var gert að bíða með yfirborðsfrágang á t.d. gangstéttum til að tryggja gæði verks þar sem skollið var á með vetrarhörkum.

Í október 2022 var send út fréttatilkynning um að áfangi 1 yrði lengdur upp fyrir Skallagrímsgötu þ.e. sem nemur því svæði sem stendur afgirt í dag. Verkhluti þessi tilheyrir áfanga 2, en framkvæmdir við áfanga 2 áttu að fara fram 1. apríl – 1. júlí og vinna við áfanga 3 frá 1. júlí – 15. október.

Framkvæmdaraðilar ákváðu að gefa verktaka heimild til þess að vinna að áfanga 2 yfir vetrartímann eins og veðurfar leyfði með það að von að stytta framkvæmdartíma í enda verksins. Í dag er áfangi 2 rétt tæplega hálfnaður í þann mund sem vinna hefði átt að vera að hefjast samkvæmt upprunalegri áætlun. Því miður hefur mikil kuldatíð í vetur gert það að verkum að vinna hefur gengið einkar erfiðlega. Hefur eftirlitsaðili m.a. stöðvað vinnu verktaka á köldustu tímabilum í því skyni að tryggja gæði verksins. En lagt er upp með að mikilvægara sé að verkið taki aðeins lengri tíma og að gæði þessu séu upp á hið besta.

Nú á að opna eldri gönguleið yfir Borgarbrautina þar sem gengið er yfir til móts við stigann sem liggur upp að Grunnskóla Borgarness og mun gönguleið framan við Borgarbraut 19-21 lokast tímabundið þeim megin götunnar.

Framundan er svo vinna við hitaveitu áður en fyllt verður í vegstæði á því svæði sem liggur undir í dag. Þegar fyllt hefur verið í og vegstæði frágengið mun hjáleið um Berugötu vera lokað og hjáleið færð yfir á Þorsteinsgötu/Skallgrímsgötu. Með hækkandi sól og vorið handan við hornið ættu umsvif að aukast verulega í verkinu og hafa framkvæmdaraðilar lýst því yfir að það sé þeirra von að geta skilað góðu verki, jafnvel fyrr en upprunalegar dagsetningar gerðu ráð fyrir.


Share: