Ugluklettur meðal tilnefndra til Orðsporsins 2013

febrúar 6, 2013
Dagur leikskólans er í dag haldinn hátíðlegur í sjötta sinn. Leikskólar landsins halda upp á daginn með ýmsum hætti til að vekja athygli á starfi leikskólakennara og til að kynna starfsemi leikskóla út á við.
Sungið af list í Uglukletti
Í tilefni dagsins voru veittar viðurkenningar sem Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti í morgun. Þær nefnast Orðsporið og eru veittar til þeirra sem hafa þótt skara fram úr og unnið ötullega í þágu leikskóla og/eða leikskólabarna. Tilnefningar til orðsporsins 2013 voru 31 og leikskólinn Ugluklettur í Borgarnesi var í hópi tilnefndra. Ugluklettur hlaut tilnefninguna fyrir „Frumkvöðlastarf og þróun á skólastefnu sem byggir á kenningum Mihaly Csikszentmihalyi um jákvæða sálfræði og þá sérstaklega Frjálst flæði (flow).“
Það voru svo Súðavíkurhreppur og Kristín Dýrfjörð og Margrét Pála Ólafsdóttir sem hlutu Orðsporið 2013. Súðavíkurhreppur fyrir að vera með 6 klst. gjaldfrjálsan leikskóla fyrir öll börn á leikskólaaldri og þær Kristín og Margrét Pála hlutu sameiginlega viðurkenningu fyrir opinbera umfjöllun um leikskólastarf hvor á sínum vettvangi og frá ólíkum sjónarhornum.
Til hamingju með daginn leikskólafólk!
 

Share: