Getur þú gengið í bakvarðasveitina?

mars 30, 2022
Featured image for “Getur þú gengið í bakvarðasveitina?”

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Fjölmenningarsetur leita nú til fólks sem talar úkraínsku og/eða rússnesku, til mynda bakvarðasveit sem ætluð er til tímabundinnar aðstoðar vegna fjölda einstaklinga sem eru að flýja stríðsátökin í Úkraínu.

Óskað er liðsinnis fólks sem menntað er á sviði heilbrigðis-, félags eða menntavísinda auk almennra starfsmanna. Bakvarðasveitin nær til fjölbreyttra starfa bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Útbúið hefur verið rafrænt skráningarform þar sem fólki gefst kostur á að skrá sig. Um er að ræða tímavinnu, hlutastarf eða fullt starf, allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Laun verða greidd af viðkomandi stofnun eða sveitarfélagi, í samræmi við gildandi kjarasamninga eða stofnanasamninga eftir því sem við á.

Sækja um hér

Bakvarðasveitin mun sinna fjölbreyttum störfum tengdum þjónustu við fólk á flótta frá Úkraínu. Dæmi um starf getur verið túlkun í viðtölum, ráðgjöf, kennsla eða aðstoð á heilbrigðissviði.

Nánari upplýsingar um ráðningarfyrirkomulag:

  • Tímabil: Leitað er að fólki sem getur skuldbundið sig í allt að tvo mánuði.
  • Laun: Laun taka mið af kjarasamningum viðeigandi stéttarfélags og þess sveitarfélags eða stofnunar sem um ræðir hverju sinni.
  • Réttindi þeirra sem ráða sig til starfa: Orlofsréttindi verða greidd jafnóðum. Veikindaréttur starfsfólks sem ráðið er í tímavinnu eða skemur en tvo mánuði er í samræmi við ákvæði viðeigandi kjarasamninga.
  • Hvernig verður staðið að ráðningum: Þær stofnanir eða sveitarfélög sem óska eftir að ráða starfsfólk úr bakvarðarsveitinni nálgast upplýsingar um liðsauka hjá Fjölmenningarsetri. Stofnanir munu sjálfar hafa samband við bakverði og ráðningarsambandið verður á milli einstaklingsins og viðeigandi stofnunar eða sveitarfélags eftir því sem við á hverju sinni.

Athugið: Nauðsynlegt er að viðkomandi hafi gilt dvalar- og atvinnuleyfi.

Til að fá frekari upplýsingar um þetta ferli má hafa samband í gegnum ukraina@mcc.is.


Share: