Niðurstöður úttekt KPMG á framkvæmdum við húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi

febrúar 3, 2022
Featured image for “Niðurstöður úttekt KPMG á framkvæmdum við húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi”

Á síðasta ári lagði byggðarráð Borgarbyggðar til að farið yrði í hlutlausa úttekt á framkvæmdum við húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi þegar upp kom misræmi milli verkbókhalds eftirlitsaðila og bókhalds Borgarbyggðar. Tilgangurinn var að skoða ferli og eftirlit á framkvæmdum á vegum Borgarbyggðar til þess að geta tekið lærdóm af framkvæmdum við Grunnskólann í Borgarnesi. Borgarbyggð fékk fyrirtækið KMPG til þess að vinna úttektina. Í úttektinni var horft til fjárfestingaráætlunar á framkvæmdatíma, fundargerða og viðtala við hagaðila.

Úttektarskýrslan liggur nú fyrir og ljóst er að miklir annmarkar voru á vinnulagi og eftirliti stjórnsýslunnar frá upphafi framkvæmdar árið 2014. Má þar helst nefna að ekki lá fyrir með ítarlegum hætti hlutverk og ábyrgð byggingarnefndar, þarf af leiðandi skorti yfirsýn og ábyrgð á stöðu verkefnis í heild sinni. Í skýrslunni kemur skýrt fram hvaða atriði það voru sem fóru úrskeiðis við framkvæmdina.

Sveitarfélagið hefur skoðað til þaula þau atriði sem fóru úrskeiðis við þessa framkvæmd og harmar þau mistök sem voru gerð í þessu framkvæmdarferli. Á síðasta ári hófst vinna við að skoða þessa annmarka við ferli og eftirlit framkvæmda sveitarfélagsins, þar sem sveitarfélagið taldi nauðsynlegt að gera úrbætur á því verklagi sem hefur verið til þessa. 

Á byggðarráðsfundi í dag var lagður fram nýr verkferill sem útskýrir hlutverk, ábyrgð og eftirlit allra aðila en ákveðnar úrbætur hafa þegar verið gerðar. Á fundinum samþykkt að farið yrði eftir framlögðum verkferli þar sem tekið var tillit til þeirra athugasemda sem KPMG gerði í framangreindri úttekt.

 


Share: