Ungmennaráðsfundur fer fram 14. október í Menntaskóla Borgarfjarðar

október 14, 2021
Featured image for “Ungmennaráðsfundur fer fram 14. október í Menntaskóla Borgarfjarðar”

Fyrsti fundur Ungmennaráðs Borgarbyggðar fer fram í dag kl. 17:00 í Menntaskóla Borgarfjarðar. Fundurinn er opinn öllum ungmennum á aldrinum 13-25 ára sem hafa áhuga á því að vera með í ungmennaráði eða vilja kynna sér verkefni ráðsins.

Undanfarnar vikur hafa ungmenni fengið kynningu á ungmennaráði og er tilgangur fræðslunnar að kynna mikilvægi raddir þeirra í samfélagið, kynna þeim rétt sinn og möguleika á að getað látið raddir sínar heyrast og haft áhrif, kynna stuttlega hvað innleiðingin á Barnvænu sveitarfélagi er og hvernig það helst í hendur við réttindi barna og ungmenna að geta komið skoðunum sínum og málefnum fram við stjórnsýsluna. Auk þess er um að ræða samráðsvettvangur fyrir stjórnsýsluna sem vill endilega fá að heyra raddir barna og ungmenna. Stjórnsýslan getur leitað til ungmennaráðs með málefni sem snúa beint að þeim til umsagna.
Þetta er liður í aðgerðaráætlun á innleiðingu Barnvænu sveitarfélagi, að byggja upp og efla ungmennaráð í sveitarfélaginu til framtíðar.

Ungmennaráð eru af ólíkum stærðum og gerðum og er ungmennaráðsmeðlimum ætlað að vera rödd barna og ungmenna innan sveitarfélagsins. Ungmennaráðið gefur ungu fólki vettvang til þess að hafa áhrif á sveitarfélagið. Meðlimir hafa frelsi til þess að velja sjálfir hvaða málefni þau vilja taka upp hverju sinni en einnig geta sveitarstjórnir leitað til þeirra. Helstu hlutverk ungmennaráðsmeðlima er að:

  • Vera fulltrúi og málsvari ungmenna í sveitarfélaginu.
  • Stuðla að virkri þátttöku ungs fólks í sveitarfélaginu.
  • Vera ráðgefandi fyrir sveitarfélagið um verkefni og málefni þess.
  • Sitja í nefndum sveitarfélaganna sem fulltrúi ungmenna.
  • Sækja markvisst skoðanir annarra ungmenna.
  • Gefa ungmennum vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri.
  • Vekja athygli á ungmennaráðinu og kynna það fyrir fólki í samfélaginu.
  • Halda viðburði sem kemur ungu fólki saman.

 

 


Share: