Íslandsmót í rallý 29.-31. ágúst

ágúst 27, 2019

Þriðja umferð í íslandsmótinu í rallý fer fram 29.-31. ágúst næstkomandi og verður hún að megninu til ekin um Vesturland. Það er Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur sem stendur fyrir keppninni sem er umfangsmesta rallkeppni ársins, þar sem eknir verða rúmlega 1000 km, þar af tæplega 300 á sérleiðum. Hefst keppnin stundvíslega þann 29. ágúst klukkan 17:00 við Olís í Mjódd en sérleiðir dagsins verða um Djúpavatn og á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Að því loknu verður tekið næturhlé.

Föstudaginn 30. ágúst halda keppendur vestur á Snæfellsnes þar sem fyrsti bíll verður ræstur frá Arnarstapa klukkan 10:00. Verða eknar fjórar umferðir milli Arnarstapa, Ólafsvíkur og Prestahrauns áður en hádegishlé verður tekið hjá ÓK í Ólafsvík. Að því loknu verða eknar tvær umferðir um Berserkjahraun áður en keppnin færist yfir í Borgarfjörðinn, nánar tiltekið um Skíðsholt og Hítardal á Mýrum. Þar verða eknar fjórar umferðir, tvær á hvorum stað og er ræsing á fyrsta bíl sem hér segir: Skíðsholt 18:35, Skíðsholt til baka 19:35, Hítardalur 19:35 og Hítardalur til baka 20:25. Að því loknu halda keppendur að Olís í Borgarnesi þar sem samansöfnun og viðgerðarhlé verður tekið.

Þriðja og síðasta daginn, 31. ágúst, halda keppendur sig að mestu í Borgarfirði. Hefst keppnin snemma á gamla veginum um Tröllháls en síðan verður ekið um Uxahryggi og Kaldadal. Ræsing á fyrsta bíl er sem hér segir: Tröllháls norður 08:10, Uxahryggir vestur 08:35, Uxahryggir austur 09:20, Kaldidalur norður 10:05, Kaldidalur suður 11:10 og Tröllháls suður 12:05. Síðasta leið keppninnar er síðan um Djúpavatn en keppninni lýkur um 15:15 við Olís í Mjódd.

Af öryggisástæðum er fólk beðið að kynna sér og virða lokanir á leiðum meðan á keppni stendur en einnig er fólk hvatt til að koma og hitta keppendur, skoða bílana og upplifa stemminguna. Hægt er að fylgjast með keppninni á bikr.is auk þess sem hægt er að fá upplýsingar um keppnina hjá keppnisstjóra, Hönnu Rún, í síma 692 9594.


Share: