Frá kynningarfundi í Logalandi

október 4, 2018
Featured image for “Frá kynningarfundi í Logalandi”

Kynningarfundur um málefni leik- og grunnskóla á Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal var haldinn að Logalandi þriðjudagskvöldið 2. október sl. Fundurinn var vel sóttur og líflegar umræður á honum. Leikskólinn Hnoðraból á Grímsstöðum verður fluttur að Kleppjárnsreykjum í nýja byggingu sem verður reist við skólahúsnæði grunnskólans. Að því loknu verður rekinn á Kleppjárnsreykjum samstæður leik- og grunnskóli sem hefur í för með sér mikla möguleika á þróun skólastarfsins á staðnum. Lilja Björg Ágústsdóttir forseti sveitarstjórnar opnaði fundinn og fór yfir forsögu málsins og hver staða þess væri. Breytingar eru þegar hafnar á eldra húsnæði grunnskólans. Stjórnendur leikskólans og grunnskólans, þær Sjöfn G. Vilhjálmsdóttir leikskólastjóri Hnoðrabóls,  Dagný Helga Vilhjálsmdóttir deildarstjóri, Helga Jensína Svavarsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar og Ingibjörg Adda Konráðsdóttir deildarstjóri  fóru sameiginlega yfir þau tækifæri sem felast í samþættingu á starfi leik- og grunnskólans eftir að framkvæmdum er lokið. Í máli þeirra kom fram að tækifærin sem felast í samþættingu skólastarfsins liggja ekki eingöngu í þeim hluta skólastarfsins sem snýr að nemendum heldur felast einnig í því mikil tækifæri fyrir starfsfólk skólanna. Fram kom hjá þeim mikil tilhlökkun til að takast á við þróun skólastarfsins á staðnum út frá nýjum forsendum sem opnast í kjölfar þeirra framkvæmda sem framundan eru. Að lokum skýrði Kjartan Sigurbjartsson, byggingarfræðingur hjá Pro-Ark teiknistofu, út fyrirhugaða hönnun leikskólans og þær breytingar sem hafnar eru á húsnæði grunnskólans. Góðar umræður urðu á fundinum í kjölfar framsöguerinda sem sneru að ýmsum þáttum fyrirhugaðra framkvæmda s.s. tímasetningu þeirra, endurskipulagningu lóðar, rými innandyra og starfsaðstöðu kennara. Í máli margra fundarmanna kom fram ánægja gagnvart þeirri stefnumörkun að samþætta starf leik- og grunnskólans þegar sá möguleiki gafst. Byggingarnefnd hefur nýlega verið endurskipuð fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir og einnig hefur verið ráðinn byggingarstjóri að verkefninu.


Share: