Landnámssetur í Borgarnesi lofað að verðleikum

janúar 20, 2007
Hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson hafa tilkynnt um stofnun öflugs velgerðarsjóðs sem þau hafa komið á fót. Við það tækifæri var Landnámssetur í Borgarnesi sérstaklega nefnt sem dæmi um vel heppnaðan afrakstur af styrkjum til menningarmála. Hjónin leggja nýja sjóðnum til einn milljarð í stofnframlag og reiknað er með að 100-150 milljónum verði úthlutað úr honum á ári, fyrst árið 2008.
Sjóðurinn er ætlaður til að styrkja velferðamál í þróunarlöndunum, en einnig til styrktar verkefna sem stuðla að bættu mannlífi á Íslandi. „Á Íslandi sjáum við til dæmis fyrir okkur að taka þátt í verkefnum á sviði menningar, lista og menntunar, mannbætandi verkefnum sem koma nærsamfélaginu og jafnvel landsmönnum öllum til góða. Landsnámssetrið í Borgarnesi er gott dæmi. Sigríður Margrét Guðmundsdóttir og Kjartan Ragnarsson eru frumkvöðlarnir sem ýttu úr vör og sannfærðu aðra, þar á meðal okkur, um að vit væri í að setjast með þeim undir árar. Þessu ferðalagi lauk eins og til var stofnað og Landnámssetrið er þegar orðið héraðsstolt Borgarfjarðar og glæsilegur vettvangur menningar og lista sem horft er til úr öðrum landshlutum.“ Heimild: www.mbl.is
 

Share: