- Snyrtilegasta bændabýlið 2017
Traðir í Hraunhrepp
Þar er stunduð æðarrækt og dúntekja. Einstaklega snyrtilegt er heim að líta og sjá má að mikil áhersla er lögð á að halda vel við öllum mannvirkjum. Umgengni er til mikillar fyrirmyndar sem samræmist vel þeirri náttúrufegurð sem þarna ríkir.
- Snyrtilegasta lóð við íbúðarhús 2017
Svava Finnsdóttir í Bóndhól
Aldingarðurinn umhverfis hús Svövu Finnsdóttur í Bóndhól er einstakur og ótrúlegt verk einnar manneskju en þennan garð hefur hún verið með í ræktun í aðeins í 22 ár eða frá 1995. Fjölbreytni trjáa og jurta er þar mikil og þar er að finna fágætar og verðmætar plöntur. Umhirða garðsins er einstök, natni og fagmennska mikil. Ekki má gleyma að minnast á að víða í garðinum leynast listaverk af ýmsum toga enda er Svava dverghög í höndum að skapa listaverk úr hlutum sem eru öðrum hulin. Jafnframt hefur Svava móttekið með gleði marga hópa sem áhuga hafa haft á að skoða paradísina hennar.
- Snyrtilegasta lóð við atvinnuhúsnæði 2017
Kaupfélag Borgfirðinga
Umhirða gróðursvæða er til mikillar fyrirmyndar og aðkoma og ásýnd mjög snyrtileg. Lögð er áhersla á að halda svæðinu bak við verslunina snyrtilegu og tryggja sem best að úrgangur fjúki ekki út af svæðinu.
- Sérstök viðurkenning vegna umhverfismála 2017
Landnámssetur Íslands
Landnámssetrið fær sérstök umhverfisverðlaun Umhverfis,-skipulags- og landbúnaðarnefndar. Landnámssetrið hefur að leiðarljósi að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag í ákvarðanatöku og þjónustu. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á flokkun úrgangs og markmið þess er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með flokkun á öllum úrgangi, að svo miklu leyti sem innviðir ráða við að taka á móti. Tekið er tillit til umhverfissjónarmiða í allri starfseminni; við val á birgjum og tegundum umbúða. Fyrirtækið hefur mikinn hug á að taka upp flokkun lífræns úrgangs til moltugerðar.
Myndin sýnir sveitarstjóra með þeim er hlutu umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar árið 2017, þeim Sigurbjörgu Helgadóttir Tröðum, Svövu Finnsdóttir Bóndhóli, Guðmundi Karli Sigríðarsyni Landnámssetri Íslands og Margréti Guðnadóttir Kaupfélagi Borgfirðinga.