Starfsemi Safnahúss Borgarfjarðar á næstunni

september 26, 2017
Featured image for “Starfsemi Safnahúss Borgarfjarðar á næstunni”

Safnahúsið verður að venju með öflugt menningarstarf í vetur og hefst dagskráin í lok október með fyrirlestrum á sviði arkitektúrs og sagnfræði. Fimmtudaginn 26. október n.k. flytur Sigursteinn Sigurðsson arkitekt erindi sem hann nefnir „Mannvirkin og sagan: Húsahönnun í héraði.“ Nokkrum vikum síðar eða 16. nóvember, verður fyrirlestur Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings á dagskrá með efni úr sögu Borgarness. Sýningin Tíminn gegnum linsuna mun standa til áramóta, en þar eru sýndar ljósmyndir fjögurra ljósmyndara sem mynduðu mannlíf og umhverfi í Borgarnesi á 20. öld. Örsýning í minningu Dr. Selmu Jónsdóttur mun einnig standa til áramóta.

Árið 2018 verður viðburðaríkt og skal fyrst telja að þá verða opnaðar fjórar listsýningar í Hallsteinssal. Sýnendur eru listakonur úr héraði: Guðrún Helga Andrésdóttir (janúar), Christina Cotofana (mars), Áslaug Þorvaldsdóttir (apríl) og Steinunn Steinarsdóttir (sept.). Ennfremur verða fyrirlestrar á dagskrá. Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur fjallar um jurtalitun 18. janúar og Már Jónsson sagnfræðingur um Jón Thoroddsen 15. febrúar.  Fyrirlestrarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Á sumardaginn fyrsta (19. apríl) kl. 15.00 verða lokatónleikar verkefnisins Að vera skáld og skapa, sem er samstarfsverkefni Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Safnahúss. Þar vinna nemendur skólans að tónsmíðum á grunni valdra texta borgfirskra skálda. Verkefnið er nú haldið í sjötta sinn.

Í árslok verður 90 ára afmælis Hvítárbrúarinnar minnst í samvinnu við Helga Bjarnason blaðamann.

Auk ofangreinds verður um ýmis smærri verkefni að ræða s.s. framsetningu fróðleiks um fólk og staði á heimasíðu hússins, þátttöku á landsvísu í verkefnum innan fagsviða s.s. Bókasafnsdegi, Skjaladegi og Safnadegi. Sýningin um Pourquoi-pas strandið (1936) fær að standa enn um sinn og lestrarátakið Sumarlestur verður á sínum stað með tilheyrandi uppskeruhátíð í ágúst.

Grunnsýningar Safnahúss, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna eru hönnunarverk Snorra Freys Hilmarssonar. Var sú fyrri opnuð í júní 2008, en sú síðari vorið 2013. Hafa þær báðar fengið góðar umsagnir í erlendum ferðahandbókum.

Í Safnahúsi eru fimm söfn starfrækt og eru þau öll í eigu Borgarbyggðar: Byggðasafn Borgarfjarðar, Héraðsbókasafn Borgarfjarðar, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Náttúrugripasafn Borgarfjarðar og Listasafn Borgarness.


Share: