Ályktun um samgöngumál

mars 9, 2017
Featured image for “Ályktun um samgöngumál”

Á 153. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var í dag, fimmtudag, var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða.

„Sveitarstjórn Borgarbyggðar lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun samgönguyfirvalda að skera alfarið niður allar þær framkvæmdir í Borgarbyggð og vesturlandi öllu sem fyrirhugaðar voru á árinu 2017 samkvæmt nýsamþykktri Samgönguáætlun. Halda átti áfram langþráðri uppbyggingu Uxahryggjarvegar ásamt því að ljúka lagningu bundins slitlags úr Lundarreykjadal niður á Borgarfjarðarbraut. Fyrir utan vonbrigði varðandi niðurskurð nýframkvæmda má benda á þar til viðbótar að í Borgarbyggð er lengsta malarvegakerfi í einu sveitarfélagi á landinu. Viðhald þeirra vega hefur verið í algeru lágmarki fjölmörg undanfarin ár sem leiðir af sér aukna hættu á umferðarslysum og gerir íbúum héraðsins, fyrirtækjum og ferðafólki erfitt fyrir á margan hátt.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar mótmælir því þeim harkalega niðurskurði fjármagns til vegaframkvæmda í sveitarfélaginu sem kynntur hefur verið og gerir kröfu til að unnið sé á eðlilegan og nauðsynlegan hátt að uppbyggingu vegakerfis innan þess og þessi ákvörðun verði því endurskoðuð. Þær þjóðfélagsbreytingar sem eru að eiga sér stað, t.a.m. með gríðarlegri aukningu á umferð, gera þá kröfu til ríkisvaldsins að þessi ákvörðun verði endurmetin sem allra fyrst þannig að á árinu 2017 fari framkvæmdir í gang eins og allur undirbúningur hafði miðast við.
Lélegt og vanburða vegakerfi með tilheyrandi slysagildrum má ekki verða takmarkandi þáttur við frekari uppbyggingu og þróun atvinnu- og mannlífs í héraðinu.“

(mynd skessuhorn.is)

 


Share: