Til upplýsingar fyrir íbúa við Kveldúlfgötu vegna gatnagerðarframkvæmda.

nóvember 2, 2016
Featured image for “Til upplýsingar fyrir íbúa við Kveldúlfgötu vegna gatnagerðarframkvæmda.”

Vegna þess að verklok framkvæmda við Kveldúlfsgötu hafa dregist miklu lengur en áætlað var í upphafi þykir rétt að gera íbúum við götuna grein fyrir stöðu gatnagerðarframkvæmda við hana. Hér verður því farið yfir þróun verksins og hvernig staða þess er nú. Þann 6. ágúst 2015 undirrituðu Borgarbyggð, Orkuveita Reykjavíkur – Veitur ohf., Míla ehf., Rarik ohf. og Gagnaveita Reykjavíkur ehf. sem verkkaupar, verksamning við Borgarverk ehf. sem verktaka um jarðvinnu, lagna og yfirborðsfrágang við Kveldúlfsgötu í Borgarnesi. Verkið fólst í fóðra frárennslislagnir, leggja vatns-, hitaveitu- og fjarskiptalagnir ásamt því að annast jarðvinnu fyrir raflagnir. Rífa skyldi upp rennustein og gangstéttar. Gangstéttir yrðu endurnýjaðar og nýr kantsteinn settur. Sérstaklega var tekið fram í verksamningi að malbik í götu yrði ekki endurnýjað nema þar sem lagfæra þyrfti eftir skurði lagna/strengja. Sú ákvörðun var tekin á grundvelli erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Lok framkvæmdatíma voru ætluð þann 30. nóvember 2015 samkvæmt samningnum. Komið var langt fram á sumar þegar samningur var undirritaður og ekki tókst að ljúka verkinu fyrir veturinn. Verkið frestaðist því vegna aðstæðna en hófst að nýju vorið 2016. Í sumarbyrjun 2016 tók Borgarbyggð upp viðræður við Borgarverk um að taka einnig fyrir jarðvegsskipti í götunni og malbikun hennar. Gatan er ekki í góðu ásigkomulagi eins allir vita sem til þekkja. Kannað var hvort þyrfti að fara í allsherjar jarðvegsskipti í götunni eða hvort væri hægt að komast af með minni framkvæmd. Athugun verkfræðistofunnar VERKÍS leiddi í ljós að jarðvegur undir malbiki í götunni er það lélegur að skipta þurfi um jarðveg áður en malbik er lagt. Á fundi byggðarráðs þann 21. júlí sl. var samþykkt að semja við Borgarverk um jarðvegsskipti og malbikun götunnar. Kostnaður við framkvæmdina er ætlaður um 40 m.kr. Þessi ákvörðun var tekin bæði vegna ástands götunnar og hagræði af því að geta lokið heildarviðgerð í einu lagi. Einnig og ekki síður var hún tekin á grundvelli þess að fjárhagur sveitarfélagsins var orðinn rýmri en árið áður, meðal annars vegna sölu eigna. Þegar ákvörðun byggðarráðs lá fyrir þá óskaði Orkuveita Reykjavíkur eftir því að geta komið að þessu verki á þann hátt að frárennslislögnum yrði komið fyrir í götunni þannig að frá þeim mætti ganga á þann hátt sem best væri gert til framtíðar. Fráveitulagnir og regnvatnslagnir yrðu þannig aðskildar. Hönnun þess verks er á lokastigi og því ekki hægt að búast við því að mögulegt verði að hefja lokaframkvæmdir við götuna héðan af fyrr en undir næsta vor þegar hægt er að fara að vinna slík verk við ásættanlegar aðstæður. Stefnt er að því að ganga þannig frá götunni fyrir veturinn þannig að fyrirsjáanleg töf valdi íbúum við hana sem minnstum óþægindum. Hér hefur framgangur verksins við endurnýjun lagna og undirbúning að jarðvegsskiptum og malbikun Kveldúlfsgötu verið rakinn í meginatriðum. Tilgangur þessarar samantektar er að upplýsa íbúa við götuna um hvað hefur valdið því að þetta verk hefur tekið miklu lengri tíma en eðlilegt er. Það er aldrei gott þegar verk dragast svo á langinn sem hér ber raun vitni. Hægt er að draga lærdóm af ýmsu í þessari framkvæmd um það sem betur hefði mátt fara. Miður er að framvinda verksins hafi verið eins og raun ber vitni. Markmiðið er að Kveldúlfsgatan verði komin í það horf næsta sumar að hún standi til langrar framtíðar, bæði ofanjarðar og neðan. Með góðri kveðju Gunnlaugur Júlíusson sveitarstjóri (mynd GJ)


Share: