Samstarfsverkefni Tónlistarskólans og Safnahússins tengt borgfirskum skáldum er nú komið í fullan gang og er það í fjórða sinn sem það kemst til framkvæmda. Verkefnið snýst um að hvetja ungt fólk til listsköpunar á grundvelli borgfirskra texta og þetta árið er það höfundarverk Snorra Hjartarsonar sem varð fyrir valinu.
Snorri var fæddur á Hvanneyri árið 1906 og ólst upp á Ytri-Skeljabrekku og í Arnarholti. Hann tengist því víða inn í héraðið. Verkefnið fer þannig fram að nemendur skólans fá vinnuhefti með ljóðum Snorra í hendur og vinna svo að því að tónsetja þau undir handleiðslu kennara sinna.
Uppskeruhátíð verkefnisins verður svo á sumardaginn fyrsta n.k. kl. 15.00 þegar haldnir verða tónleikar í Safnahúsi. Þess má geta að sumardagurinn fyrsti er 21. apríl, daginn fyrir fæðingardag Snorra.Fjölskylda hans hefur fylgst með verkefninu frá upphafi og leggur því lið eftir föngum. Þetta samstarfsverkefni stofnananna tveggja hefur vakið afar jákvæða athygli og sýnir að ólík fagsvið geta starfað saman með góðum árangri í þágu síns samfélags. Verkefnið byggir á menningarstefnu Borgarbyggðar þar sem kveðið er á um mikilvægi þess að hvetja til listsköpunar í héraði og miðla þekkingu til ungs fólks. Mikil breidd felst í verkefninu, nemendur Tónlistarskólans eru víða að úr héraðinu og á ýmsum aldri; á tónleikum ársins 2015 var yngsti tónsmiðurinn sjö ára.
Sjá heimasíðu Safnahúss: www.safnahus.is