Ársreikningur 2015 – fréttatilkynning

apríl 15, 2016

Verulegur viðsnúningur í rekstri Borgarbyggðar

Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2015 sýnir jákvæða rekstrarafkomu sem nemur 170 milljónum króna. Er það verulega mikill viðsnúningur á milli ára en rekstrarhalli var um 104 milljónir árið 2014. Rekstrartekjur hækkuðu um 420 milljónir á milli ára eða 13,8% og rekstrargjöld um 5,6%.  Skuldir lækka áfram og handbært fé eykst umtalsvert. Borgarbyggð stenst nú þær fjármálareglur sem sveitarfélögum eru settar, 3 ára rekstrarjöfnuður er jákvæður og skuldahlutfall heldur áfram að lækka og er nú komið í 138% af veltu, skuldaviðmið er 107%.  Skuldaviðmið samkvæmt sveitarstjórnarlögum má ekki vera hærra en 150% af reglulegum tekjum og er því Borgarbyggð komin vel undir það mark og markmið að svo verði áfram þrátt fyrir meiri fjárfestingar og framkvæmdir.

Margir samverkandi þættir stuðluðu að þessari jákvæðu rekstrarniðurstöðu og má þar m.a. nefna ýmsar aðhaldsaðgerðir sem fyrrum sveitarstjóri, sviðsstjórar og forstöðumenn stofnana leiddu af miklum metnaði, stofnanir sveitarfélagsins stóðust fjárhagsáætlun, framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga urðu 120 milljónum hærri en ráð var fyrir gert, fasteignagjöld voru hækkuð sem leiddi til um 100 milljón króna viðbótar tekna, eignasala bætti sjóðsstöðu, lág verðbólga dró úr fjármagnskostnaði og framkvæmdir voru í sögulegu lágmarki. Íbúum hefur fjölgað um 100 á milli ára og útsvarstekjur þar með hækkað.

Verkefnið „Brúin til framtíðar“ sem sveitarstjórn setti af stað í samstarfi við ráðgjafa og embættismenn er að skila markvissari vinnubrögðum við gerð fjárhagsáætlana og markar leiðina að settu marki skýrar en verið hefur.  Áfram verður unnið samkvæmt þeim vörðum sem markaðar eru í þeirri aðgerðaráætlun.

 

Nánari upplýsingar veita Björn Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar í síma 660-8245 og Geirlaug Jóhannsdóttir formaður byggðarráðs í síma 893-8960.


Share: