Vörðuverkefnið vígt

ágúst 12, 2004
Snorri vígir vörðurnar. Mynd: Jónína Arnardóttir
 
Í sumar hefur fyrirtækið Landnám Íslands ehf. sem er í eigu Borgarbyggðar og hjónanna Kjartans Ragnarssonar og Sigríðar M Guðmundsdóttir látið reisa níu vörður á þekktum stöðum úr Egilssögu. Verkefni þetta sem styrkt var myndarlega af Menningarborgarsjóði hefur verið nefnt Egilssaga sýnileg.
Vörðurnar hafa verið reistar á eftirtöldum stöðum: Við Granastaði í Borgarnesi, við Brákarsund í Borgarnesi, við Skallagrímsgarð í Borgarnesi þar sem haugur Skallagríms er, að Borg á Mýrum, í Rauðanesi, við Ánabrekku, á Álftanesi, við Krummskeldu og að Hvítárvöllum. Gefinn hefur verið út bæklingur þar sem vísað er á vörðurnar í texta og á korti. Ennfremur er í bæklingnum reifaðir þeir atburðir í Egilssögu sem tengjast viðkomandi stöðum.
Miðvikudaginn 11. ágúst var þetta verkefni formlega vígt að viðstöddum fulltrúum þeirra staða þar sem reistar hafa verið vörður, stjórn Landnáms Íslands, fulltrúum frá bæjarstjórn Borgarbyggðar og fleirum sem komið hafa að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Athöfnin hófst að Borg þar sem sr. Þorbjörn Hlynur Árnason ábúandi á Borg ávarpaði gesti og bauð til kirkju. Síðan var gengið upp á Borgina þar sem varðan er. Kjartan Ragnarsson sagði frá verkefninu og vinnu við það og þakkaði öllum sem að verkinu hafa komið. Snorri Þorsteinsson flutti ávarp og vígði síðan verkefni með táknrænum hætti þegar hann kveikti eld við hlið vörðunnar.
Að vígslunni lokinni var gestum boðið í Pakkhúsið við Brákarsund en þar mun Landnám Íslands setja upp sýningu á næsta ári.
 

Share: