Bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkir framkvæmdaáætlun fyrir Staðardagskrá 21

mars 15, 2004
 
Bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkt á síðasta fundi sínum framkvæmdaáætlun fyrir Staðardagskrá 21, en í henni eru sett fram metnaðarfull markmið um það hvernig megi stuðla að sjálfbærri þróun í sveitarfélaginu. Sjálfbær þróun snýst ekki bara um umhverfismál, hún snýst ekki síður um almenna velferð íbúanna.
Bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á árinu 2001 að hefja vinnu við Staðardagskrá 21 og var skipaður sérstakur vinnuhópur og verkefnisstjóri ráðinn til að vinna að verkefninu. Almenningur, fyrirtæki og félagasamtök tóku virkan þátt í verkefninu og má nefna að um 50 manns störfuðu í sérstökum tengslahópi sem fundaði reglulega.
Unnin var ýtarleg úttekt á stöðu eftirfarandi málaflokka; holræsi og fráveitur, vatnsveitur,
sorphreinsun og sorpeyðing, menningarminjar og náttúruvernd, umhverfismennt, skipulagsmál, eyðing meindýra, atvinnumál, opinber innkaup, neyslumynstur og lífstíll, ræktun og útivist. Þá var staða ákveðinna íbúahópa skoðuð sérstaklega, en það voru börn, unglingar og eldri borgarar.
Á grundvelli þessarar úttektar var unnin markmiðasetning og framkvæmdaáætlun um það hvernig þróa beri Borgarbyggð í átt til sjálfbærrar þróunar.
Staðardagskrá 21 í Borgarbyggð er framtíðarsýn íbúa sveitarfélagsins og áætlun um leiðina til sjálfbærs samfélags. Áætlun sem verður að vera í sífelldri endurskoðun. Staðardagskrá 21 er ferli sem aldrei lýkur og það krefst virkrar þátttöku íbúanna.
 
Allar nánari upplýsingar veitir Páll S. Brynjarsson bæjarstjóri í síma 437 – 1224 eða 896- 2177.
 

Share: