Aukinn fíkniefnavandi í umdæmi lögreglunnar í Borgarnesi

nóvember 28, 2003
Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi hefur aldrei verið lagt hald á meira magn af fíkniefnum en gert hefur verið í ár. Að hluta til er það vegna aukinnar löggæslu og virkni lögreglunnar í Borgarnesi við rannsóknir fíkniefnamála en einnig er það vegna aukinnar meðferðar fíkniefna á svæðinu. Sérstaklega
varhugaverð er sú staðreynd að lögreglan hefur verið að haldleggja sterkari efni svo sem E-pillur, amfetamín og kókaín sem þýðir að eftirspurn eftir slíkum efnum er til staðar í umdæminu. Varla þarf að taka það fram að neysla sterkari efna er hættulegri en neysla þeirra veikari. En þróunin er
oftast sú að þeir sem byrja í kannabisefnum leita margir hverjir í sterkari efni með tímanum.
Lagt hefur verið hald á rúmlega 40 grömm af kannabisefnum, 2 gr. af Amfetamíni, 10 gr. af Kókaíni og rúmlega 20 E-pillur
„Það er eins og margir foreldrar hafi sofnað á verðinum og þekki t.d. alls ekki einkenni þeirra sem eru í fíkniefnaneyslu“, sagði talsmaður Lögreglunnar í Borgarnesi. „Það er nauðsynlegt að foreldrarnir hugi að því í hvaða félagsskap unglingarnir þeirra sækja og hverja þeir umgangast frá
degi til dags. Það er hægt að fullyrða að séu unglingar í félagsskap við þá sem eru í fíkniefnaneyslu eða hafa verið í slíkri neyslu, þá séu viðkomandi komnir í áhættuhóp og miklar líkur séu til þess að viðkomandi byrji að fikta við fíkniefni sem síðan leiðir oftast út í aukna fíkniefnaneyslu.“
„Ábyrgð þeirra foreldra eða húsráðenda sem „umbera“ fíkniefnaneyslu í sínum húsum er mikil og nær langt út fyrir börn þeirra eða ættingja. Hvetur lögreglan foreldra sem og aðra ábyrgðarmenn barna og ungmenna til að líða ekki fíkniefnaneyslu í sínum húsum og uppræta þennan vágest með því að taka ábyrga afstöðu gegn fíkniefnum.“
Þá hvetur lögreglan foreldra til þess að mæta á forvarnarfund sem haldinn verður í félagsmiðstöðinni Óðali í byrjun desember í tengslum við Marita-verkefni sem kynnt verður í Grunnskóla Borgarness og Varmalandsskóla.
En það verkefni fjallar um víðtæka forvarnarfræðslu og er ætlað til kynningar í efstu bekkjum grunnskóla.

Share: