Safnar skemmilegu fólki

júní 20, 2003

“Jónína Erna Arnardóttir og Óskar Þór Óskarsson

Borgfirðingahátíð var haldin í fjórða sinn um síðustu helgi. Var þetta mjög vel heppnuð hátíð og fjölmargir lögðu leið sína upp í Borgarfjörð. Einn liður í hátíðinni var kvikmyndasýningin „Óskarinn“ þar sem Óskar Þór Óskarsson í Borgarnesi sýndi tvær heimildarmyndir sem hann hefur gert, annars vegar sögur frá stríðsárunum og hinsvegar heimildamynd um netaveiðar í Hvítá. Við sama tækifæri var Borgfirðingahátíð sett auk þess sem Jónína Erna Arnardóttir, formaður menningamálanefndar Borgarbyggðar útnefndi Óskar heiðurslistamann sveitarfélagsins árið 2003 og má segja að þar hafi verið á ferðinni sannkölluð Óskarsverðlaun. Blaðamaður Skessuhorns ræddi við nýkrýndan heiðurslistamann til að forvitnast lítillega um manninn á bak við linsuna sem á síðustu árum hefur fest á filmu ýmsa viðburði í Borgarfjarðarhéraði og tekið viðtöl við fjölda einstaklinga sem margir hverjir eru horfnir á braut en lifa í filmusafni Óskars.

 

Eingöngu fikt

Óskar Þór er vélamaður að aðalstarfi og hefur um áratugaskeið gert út traktorsgröfu og þykir með þeim flinkari á því sviði. Hann er hinsvegar hógværðin holdi klædd þegar talið berst að kvikmyndagerðinni. „Ég tek þetta nú ekki alvarlega og lít eingöngu á þetta sem tómstundagaman,“ segir Óskar. „Ég byrjaði á þessu að einhverju ráði árið 1996 og keypti þá vél sem var ekki beint heimilisvél. Þetta var super VHS vél og þótti góð á þeim tíma. Ég var búinn að taka eitthvað smávegis áður á venjulega heimilisvél en gæðin á því voru ekki neitt sérstök. Síðan hefur þetta undið upp á sig og þótt það segi kannski ekki mikið þá held ég að ég eigi núna um 300 spólur af efni sem er allt skráð í heimatilbúnu kerfi en allavega þannig að það er aðgengilegt fyrir mig.“
 

Safnar fólki

Óskar segir að í seinni tíð hafi hann farið meira út í að heimsækja fólk með myndavélina og taka upp samtöl. „Það er fyrst og fremst það að ég hef gaman af skemmtilegu fólki og þekki marga skemmtilega kalla og konur og þessvegna hefur þetta bara þróast svona og nú á ég orðið nokkuð gott safn af skemmtilegu fólki.“ Óskar hefur ekki látið nægja að safna efni á spólur heldur hefur hann í seinni tíð farið út í að fullvinna efnið sjálfur. „Ég var fyrst að reyna að klippa þetta með tveimur vídeotækjum og tveimur fjarstýringum en það var eiginlega ómögulegt. Síðan fór ég út í það í vetur að kaupa mér tölvu og koma mér upp klippibúnaði og núna hef ég setið töluvert við þetta og með góðri aðstoð tæknisnillingsins Einars Braga Haukssonar er ég að ná tökum á þessu en hann hefur reynst mér vel í þessu brambolti mínu. Ég hef svosem ekki sett mér neitt sérstakt markmið en þetta fer ekkert frá manni og alltaf hægt að grípa í þetta og klippa þetta til og matreiða þannig betur í þá sem áhuga hafa á að sækja þetta. Ég neita því svosem ekki að ég er með ýmsar hugmyndir sem ég veit ekki hvort verður eitthvað úr.“ Óskar vill eins og fyrr segir sem minnst gera úr sinni kvikmyndagerð en segir að það hafi komið sér ánægjulega á óvart sú viðurkennig sem hann hlaut um helgina. „Ég var hvattur til þess í vetur af góðu fólki að sækja um styrk hjá menningarsjóði Borgarbyggðar til tækjakaupa og átti ekki von á neinu en fékk síðan myndarlegan styrk sem var ekki aðeins fjárhagslegur stuðningur heldur ekki síður móralskur. Síðan má segja að þessi viðurkenning hafi verið
annar óvæntur bónus,“ segir Óskar að lokum.

Share: