Böðvar Guðmundsson rithöfundur frá Kirkjubóli er sjötugur í dag. Í tilefni tímamótanna verður efnt til listavöku í Íslensku óperunni næstkomandi sunnudag þar sem ýmsir þekktir listamenn flytja verk skáldsins. Einnig minnist Safnahús Borgarfjarðar Böðvars sérstaklega með umfjöllun um hann og verk hans á heimasíðu sinni: (www.safnahus.is).
Eftir Böðvar liggja ljóðabækur, leikrit og skáldsögur og fjöldi þýðinga fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Austan Elivoga, kom út árið 1964. Skáldsögur hans um ferðir Íslendinga til Vesturheims hafa vakið mikla athygli og hlaut Böðvar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðari. Þær voru síðar færðar í sviðsbúning og settar upp í Borgarleikhúsinu leikárið 2004 – 2005. Böðvar hefur einnig samið fjöldann allan af söngtextum. Meðal þýðinga Böðvars má finna verk eftir Heinrich Böll, Roald Dahl, Michael Ende og Astrid Lindgren. Böðvar er nú með bók í smíðum, en nýjasta bókin hans er Sögur úr Síðunni sem kom út fyrir jólin 2007.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir