Forvarnar- og æskulýðsball 13 skóla !

nóvember 15, 2002
Árlegt Forvarnar- og æskulýðsball fór fram á Hótel Borgarnesi s.l. fimmtudagskvöld. Var þetta í 10 skiptið sem unglingarnir í félagsmiðstöðinni Óðal setja upp forvarnardag eins og þau vilja sjá framkvæmd svoleiðis dags í samvinnu við starfsmenn Óðals. Alls komu þarna saman 360 unglingar úr 8.—10. bekk 13 skóla og er óhætt að segja að glæsilega hafi til tekist eins og svo oft áður á þessum degi.
Dagskráin hófst með sýningu stuttmynda sem unglingar hafa verið að gera um skaðsemi áfengis og vímuefna. Því næst komu skemmtiatriði frá hverjum skóla og voru þau vönduð og glæsileg eins og svo oft áður. Athygli vöktu tónlistaratriði þar sem fjórar unglingahljómsveitir þar á meðal ein stúlknahljómsveit skemmtu og sýnir það okkur að hljómsveitaraðstaða sem margar félagsmiðstöðvar og skólar eru nú farin að bjóða upp á í félagsstarfinu er þegar farið að skila sér í vel æfðum unglingahljómsveitum. Ein vinsælasta hljómsveit landsins Í svörtum fötum tæmdi svo dagskrána og var mikið dansað.
Engin vandamál komu upp sem táknar að unglingarnir virða þetta framtak og vilja halda því áfram í núverandi mynd. Til hamingju krakkar með glæsilegt kvöld.
i.j.

Share: