Enn og aftur er aðsóknarmet slegið í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi en um 130 þús. manns komu í íþróttamiðstöðina á árinu 2001 sem er um 17 þús. manna aukning frá árinu 2000. Sundlaugargestum fjölgaði um 5 þús. manns en 82 þús. komu við á sundlaugarsvæðinu og er ljóst að nú þarf að fara að huga að byggingu fleiri búningsklefa og viðbótarleiklaugar ef vinsældirnar halda svona áfram.
Framundan er að taka í notkun fullkomið tölvukerfi í íþróttahúsinu. Í stað þess að viðskiptavinir sýni þrekkort, þolfimikort eða ljósakort í afgreiðslu mun öll skráning verða á tölvutæku formi. Mikill kippur hefur verið í þreksalnum eftir áramót og er greinilegt að átak í heilsurækt hefur verið vinsælt áramótaheit í Borgarfirðinum og er þreksalurinn strax orðinn þéttsetinn kl. 07.oo á morgnana. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá fjölgun eldri borgara á svæðinu, en fyrir utan það að ganga á upphitaðri hlaupabrautinni úti og fara í sund og heita potta eru þeir farnir að sækja tækjasalinn sem er frábært.
Nýju hlaupabrettin slá í gegn enda margir trimmarar búnir að bíða eftir þeirri viðbót í þresalinn. Það er Íris Grönfeldt íþróttafræðingur sem segir til í þreksalnum og smíðar æfingaplön við hæfi hvers og eins. Mánaðarkort í þreksal, sundlaug og heita potta kosta aðeins 3.300 kr. Sífellt færist í aukana að fyrirtæki sjái sér hag í að styrkja starfsmenn sína í að taka þátt í kaupum á heilsukorti og fá í staðinn hressari og hraustari starfsmenn sem taka færri veikindadaga.
Framundan er markaðsátak sem miðar að því að vekja athygli íbúa höfuðborgarsvæðisins á aðstöðunni hér í Borgarnesi.
Við tilkomu Hvalfjarðargangnanna er dagsferð með fjölskylduna í Borgarfjörðinn skemmtilegur kostur í helgarafþreyingunni.