Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar samþykkt

desember 15, 2001

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2002 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 13. desember s.l.

Samkvæmt fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur ársins 2002 nemi 604 milljónum króna sem er um 8% hækkun á milli ára. Þær skiptast þannig að útsvarstekjur eru áætlaðar 414 milljónir króna, fasteignagjöld 67 milljónir króna og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 123 milljónir króna. Þjónustutekjur er áætlaðar um 140 milljónir króna.
Kostnaður við rekstur málaflokka að frádregnum þjónustutekjum nemur 537 milljónum króna. Þar af fara 330 milljónir króna eða 55% af skatttekjum til fræðslumála, þar með taldir leikskólar. Framlegð fyrir fjármagnsliði nemur samkvæmt áætluninni 67 milljónum króna sem er um 11% af skatttekjum. Rekstraráætlunin einkennist af hækkun launakostnaðar í kjölfar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á árinu 2001 og á móti að fylgt verði aðhaldssemi í rekstri sveitarfélagsins.
Til framkvæmda og fjárfestinga eru áætlaðar um 140 milljónir króna á árinu 2002. Þar vega þyngst áform um bygginu leikskóla á Bifröst en endanlegar tillögur þar að lútandi liggja ekki fyrir. Mikil uppbygging hefur verið á Bifröst síðustu misseri og enn frekari uppbygging er ráðgerð þar á næsta ári.
Samkvæmt fjárhagsáætlun Borgarbyggðar eru lántökur á árinu 2002 áætlaðar um 150 milljónir króna en að afborganir eldri lána nemi um 70 milljónum króna.
Um næstu áramót verða gerðar breytingar á reikningsskilum sveitarfélaga sem mun jafnframt þýða breytingu á framsetningu fjárhagsáætlunar sem unnið verður að í byrjun árs 2002.


Share: