Skólastefna Borgarbyggðar

mars 13, 2001

Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 18. janúar s.l. var samþykkt skólastefna Borgarbyggðar.
Í skólastefnunni koma fram áherslur Borgarbyggðar í skólamálum varðandi grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla.
Skólastefnan er svohljóðandi:

SKÓLASTEFNA


Skólastefna Borgarbyggðar nær til leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla sveitarfélagsins. Lög, reglugerðir og aðalnámsskrár eru grundvöllur stefnu um skólastarf ásamt ákvörðunum bæjarstjórnar. Hver skólastofnun getur markað eigin skólastefnu í samræmi við stefnu sveitarfélagsins og hefur að öðru leyti frjálsar hendur um skipulag og framkvæmd skólastarfs.


Með stefnumörkun sinni leggur Borgarbyggð áherslu á eftirfarandi:

* skólar sveitarfélagsins verði í fararbroddi hvað varðar gæði náms og starfsaðstöðu

* öllum börnum í sveitarfélaginu sé tryggður jafn aðgangur að góðri og fjölbreyttri aðstöðu og menntun í öruggu starfsumhverfi

* grunnskólar verði einsetnir heilsdagsskólar og nemendur eigi þar kost á máltíð

* hlutverk sveitarfélagsins er að styðja við umbóta og þróunarstarf í skólunum

* faglegur metnaður ríki í skólastarfi og þeirri þjónustu sem sveitarfélagið veitir skólunum

* starfsfólki verði tryggður aðgangur að símenntun og endurmenntun er bjóðast á hverjum tíma

* í skólum sveitarfélagsins verði aukin áhersla á upplýsingatækni við sem fjölbreyttastar aðstæður

* gott samstarf ríki milli starfsfólks, stjórnenda, nemenda og foreldra, innan skólastofnana, milli skólastiga og meðal einstakra stofnana.

* árangur og vellíðan barna í skólastarfi er grunnur að velferð þeirra um ókomna tíð og er jafnframt vitnisburður um frammistöðu okkar allra.


Share: