Styrkir til íþrótta-, tómstunda og æskulýðsmála 2001

febrúar 2, 2001

Tómstundanefnd Borgarbyggðar auglýsir hér með eftir umsóknum vegna úthlutunar á peningalegum styrkjum til íþrótta- tómstunda- og æskulýðsstarfsemi fyrir árið 2001.

Umsóknir þurfa að hafa borist til íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Borgarbraut 11 fyrir þriðjudaginn 20. febrúar n.k. Um styrki geta sótt félög og aðilar í Borgarbyggð sem sinna íþrótta- tómstunda- og æskulýðsstarfi eða hafa með höndum aðra sambærilega starfsemi.

Úthlutunarreglur vegna framlaga eru:

1.gr.
Úthlutað er peningalegum styrkjum til íþrótta- tómstunda- og æskulýðsmála eða annarra aðila í samræmi við fjárhagsáætlun Borgarbyggðar hverju sinni. Við úthlutun skal haft að leiðarljósi að stuðla að fjölbreytileika í íþrótta- tómstunda- og æskulýðsstarfi í sveitarfélaginu.

2.gr.
Í janúar ár hvert skal auglýst eftir umsóknum um styrki. Umsóknarfrestur skal að jafnaði miðast við lok febrúar.

3.gr.
Um styrki geta sótt félög og aðilar sem sinna íþrótta- tómstunda- og æskulýðsstarfi í sveitarfélaginu eða hafa með höndum aðra sambærilega starfsemi.

4.gr.
Tómstundanefnd gerir tillögur að úthlutun samkvæmt reglum þessum að loknum umsóknarfresti.

Umsókn skal fylgja:
a. Yfirlit yfir fjárhagsstöðu umsækjanda, og deilda hans ef við á, fyrir síðastliðið ár.
b. Yfirlit yfir fjölda virkra iðkenda og aldursskiptingu þeirra.
c. Fjárhagsáætlanir umsækjanda, og deilda hans ef við á, fyrir árið.
d. Áætlanir um umfang starfsins.
Við úthlutun verður einnig litið til:
a. Markmiða umsækjanda í æskulýðsstarfi.
b. Menntunar og reynslu leiðbeinenda, ásamt markmiðum með starfi þeirra.
c. Fjölbreytni og umfangs verkefna.
d. Virkni félagslegs starfs.

5. gr.
Þau félög sem eru deildarskipt sækja um styrk fyrir sínar deildir. Ekki er úthlutað sérstaklega til deilda heldur skal viðkomandi félag ráðstafa þeim fjármunum sem það fær í styrk, sjálft til deildanna eftir reglum hvers félags fyrir sig.

6.gr.
Verði stofnað nýtt félag skal metið í hvert sinn það starf sem þar fer fram áður en til úthlutunar kemur. Að þremur árum liðnum skal félagið njóta sama réttar og aðrir varðandi umsóknir til styrkja.


Share: