Íbúum fjölgar í Borgarbyggð

desember 22, 2000

Skv. bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands var íbúafjöldi í Borgarbyggð 2.468 þann 1. desember 2000. Hinn 1. desember 1999 voru íbúar Borgarbyggðar 2.421 og varð því fjölgun milli ára um 47 manns eða 1,9%. Fjölgunin er nokkuð yfir landsmeðaltali sem var 1,5% aukning.

Íbúum í Borgarnesi fjölgaði á sama tímabili úr 1.720 í 1.740 eða um 20. Íbúafjölgun í dreifbýli verður væntanlega að stærstum hluta rakinn til Viðskiptaháskólans á Bifröst.
Íbúum á Vesturlandi fjölgaði um 209 eða 1,5% milli áranna 1999 og 2000 sem er jafnt landsmeðaltali. Þar af fjölgaði íbúum Akraness um 78.

Frekari upplýsingar af heimasíðu Hagstofunnar (http://www.hagstofa.is)
“Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 2000 voru 282.845 einstaklingar búsettir á landinu, 141.593 karlar og 141.252 konur. Hinn 1. desember 1999 voru íbúar á landinu 278.717. Á einu ári fjölgaði íbúum því um 4.128 eða 1,48%. Þetta er nokkru meiri fólksfjölgun en á árinu 1999 (1,25%) og mesta fjölgun frá árinu 1991. Síðustu tíu ár hefur fólki á landinu fjölgað um 27.137 eða 10,6% og er það 1,01% að meðaltali á ári.

Breytingar á íbúafjölda landsvæða
Árið 2000 fjölgaði fólki á höfuðborgarsvæðinu (3.485, 2,0%), Suðurnesjum (438, 2,7%), Vesturlandi (209, 1,5%), Norðurlandi eystra (109, 0,4%) og Suðurlandi (280, 1,3%). (Höfuðborgarsvæðið nær yfir Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Bessastaðahrepp, Garðabæ, Hafnarfjörð, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp). Á öðrum landsvæðum fækkaði fólki. Mest varð fækkun á Austurlandi (193, 1,6%) og Vestfjörðum (168, 2,0%). Fólki fækkaði einnig á Norðurlandi vestra (32, 0,3%). Síðastliðinn áratug hefur fólki fjölgað á höfuðborgarsvæðinu (29.020, 19,9%), Suðurnesjum (1.289, 8,5%), Norðurlandi eystra (339, 1,3%) og Suðurlandi (717, 3,5%) en fækkað á Vesturlandi (274, 1,9%), Vestfjörðum (1.648, 16,8%), Norðurlandi vestra (1.014, 9,7%) og Austurlandi (1.292, 9,8%).”


Share: