Málefni fatlaðra

september 15, 2000

Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar þann 14. september var eftirfarandi tillaga samþykkt.
“Á grundvelli niðurstaðna vinnuhóps um málefni fatlaðra í Borgarbyggð samþykkir bæjarstjórn Borgarbyggðar að leitað verði eftir samningum við félagsmálaráðuneytið um yfirtöku sveitarfélagsins á málaflokknum. Bæjarstjóra er falið að óska eftir viðræðum við ráðuneytið um málið í samráði við bæjarráð”

S.l. vetur skipaði bæjarstjórn þriggja manna vinnuhóp um það verkefni að skoða hvernig skynsamlegt verði fyrir Borgarbyggð að standa að yfirtöku á málefnum fatlaðra. Með vinnuhópnum starfaði félagsmálastjóri Borgarbyggðar og einnig sat fulltrúi Borgarfjarðarsveitar fundi vinnuhópsins. Niðurstaða vinnuhópsins var að leggja til við bæjarstjórn að leita sem fyrst eftir samningi við félagsmálaráðuneytið um yfirtöku á málefnum fatlaðra í sveitarfélaginu.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem gengur út frá yfirtöku sveitarfélaga á málaflokknum frá 1. janúar 2002. Lög um málefni fatlaðra munu þá verða lögð niður. Líklegt er talið að einhver dráttur verði á gildistöku þessara laga, a.m.k. hvað yfirtökuna varðar. Allnokkur sveitarfélög hafa hins vegar þegar samið við félagsmálaráðuneytið um að reka þennan málaflokk, bæði sem tilraunaverkefni fyrir reynslusveitarfélög og með heimild í gildandi lögum um málefni fatlaðra.
Á Vesturlandi eru málefni fatlaðra í höndum ríkisins og er málaflokknum sinnt af svæðisskrifstofu fatlaðra sem staðsett er í Borgarnesi. Akraneskaupstaður á hins vegar í viðræðum við félagsmálaráðuneytið um yfirtöku á málaflokknum. Á Vesturlandi er starfandi landshlutanefnd sveitarfélaga sem samstarfsvettvangur þeirra um hvernig tekið verði við þessu nýja verkefni.
Ekki er hægt að fullyrða hvað kemur út úr viðræðum við félagsmálaráðuneytið en ljóst að stefnan er að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna líkt og gerðist með grunnskólann fyrir nokkrum árum. Fyrir því eru rök þar sem nálægð stjórnvalds og neytenda þjónustunnar verður meiri og þjónustan batnar í mörgum tilfellum. Reynslan af yfirtöku verkefna frá ríkisvaldinu er hins vegar sú að nægir tekjustofnar hafi ekki fylgt með. Sveitarfélögin þurfa því að vera varkár í samningum við ríkisvaldið að þessu leyti.


Share: