Tvöföldun á fjölda búsettra yfir sumarmánuðina

september 5, 2000

Að beiðni bæjarstjóra Borgarbyggðar hefur Atvinnuráðgjöf Vesturlands unnið áfangaskýrslu um svokallaða “dulda búsetu” í Borgarfirði. Kveikjan að þessari vinnu var fundur um löggæslu- og heilsugæslumál með fulltrúum Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, löggæsluaðila og heilsugæsluaðila í Borgarfirði í júlí s.l.

Markmiðið með skýrslunni er að meta fjölda þeirra sem dvelja í umdæmum lögreglu og heilsugæslu í Borgarfirði, einkum yfir sumarið. Megin niðurstaðan er sú að að meðaltali dveljist um 3.800 manns í umdæmi Borgarneslögreglu yfir sumarmánuðina (maí til ágúst) umfram þá sem þar eiga lögheimili. Liggur nærri að þetta sé tvöföldun á íbúafjölda m.v. fasta búsetu. Sambærilegar tölur fyrir heilsugæsluumdæmið eru um 3.300 manns. Fram kemur í skýrslunni að umferðarþungi um Hafnarfjall hafi aukist um 50% á árunum 1995 til 1999, og væntanlega hefur hann aukist enn frekar í sumar.
Ákvörðun fjárveitinga til ofangreindra embætta hafa að mestu tekið mið af fjölda íbúa með fasta búsetu. Skýrslan gefur til kynna að í raun sé verið að þjónusta um helmingi fleiri einstaklinga yfir sumarmánuðina en sem þar eiga fast heimili. Eðlilegt er að fjárveitingavaldið taki tillit til þess þegar ákvarða á umfang heilsugæslu- og löggæsluþjónustu í Borgarfirði.


Share: