Dráttur á viðgerð á götum í Borgarnesi

september 5, 2000

Eins og þeir sem hafa ekið um götur Borgarness í sumar hafa orðið varir við er nokkuð um skemmdir í götunum. Sérstaklega á það við Borgarbraut og Hrafnaklett.
Vegagerðin sér um viðhald á Borgarbraut, sem er þjóðvegur í þéttbýli, en Borgarbyggð um viðhald á Hrafnakletti.
S.l. vor var samið við verktaka um að taka að sér að leggja nýtt slitlag á báðar þessar götur en hann hefur ekki enn komið til að vinna verkið þrátt fyrir samkomulag um að því lyki í júní.
Fyrir nokkru óskaði verktakinn eftir að hreinsað væri upp úr götunum (fræsað) þar sem hann ætlaði að byrja verkið daginn eftir en sú áætlun stóðst ekki frekar en aðrar tímasetningar hans.
Ekki hefur tekist að fá annan aðila til að taka að sér verkið þar sem mikil verkefni eru hjá þeim sem sinna slíkum viðgerðum.


Share: